Strákarnir áfram í Evrópukeppninni

Í gær fór fram síðari leikur Hauka og Conversano í EHF keppni karla. Fyrri leikurinn fór fram fyrir viku og sigruðu Ítalarnir þá á heimavelli 32-31 eins og flestir vita. Strákarnir okkar þurftu því að vinna til að komast áfram.

Strákarnir byrjuðu mjög vel. Maggi byrjaði leikinn á því að verja vel og strákarnir komust í 4-1. Þeir héldu þeirri forustu í svolítinn tíma, komust í 8-4, en þá kom slæmur kafli okkar manna. Ítalirnir náðu að minnka muninn í 9-8. Á þessum tíma, þegar um 15 mínútur voru búnar af fyrri hálfleik, kom kafli mistaka. Hvert skotið á fætur öðru hjá báðum liðum hitti ekki markið, hafnaði í stöng, slá eða yfir, og sendingar klikkuðu. Leikurinn var jafn fram að hálfleik. Conversano komst yfir 10-11 og var skrefinu á undan út hálfleikinn. Staðan í hálfleik var 14-14, sú sama og var í hálfleik í fyrri leik liðana. Það benti því allt til þess að svipað mikið yrði skoraði og því þyrftu strákarnir okkar að stóla á að vinna með tveimur. Sóknin hjá okkar strákum var ekki góð í fyrri hálfleik. Mistök eftir mistök, sendingar rötuðu ekki rétta leið og einhvern vegin var eins og erfitt væri að koma boltanum inn fyrir marklínuna.

Í síðari hálfleik byrjuðu okkar strákar betur. Þeir komust yfir 16-15 en Conversano var fljótlega komið yfir aftur. Ítalarnir náðu tveggja marka forustu 19-21 og 21-23 rétt eftir miðjan síðari hálfleikinn. Var fólk orðið stressað í áhorfendapöllunum og ýmsir farnir að trúa að Evrópuævintýrið væri búið. En þá kom góður kafli hjá strákunum okkar. Þeir náðu að jafna 23-23 og komast yfir 25-23. Fjögur mörk í röð. En þá kom aftur frekar daufur kafli, Ítalarnir náðu að jafna 26-26 og aðeins um tvær mínútur eftir. Nú var fólki ekki farið að standa á sama í pöllunum. En síðustu tvær mínúturnar voru okkar. Gísli Jón náði að koma okkur yfir 27-26 og við vorum áfram samkvæmt stöðunni þá. Ein mínútu eftir og Conversano í sókn. Magnús ver og okkar strákar ná góðri sókn sem endar með marki Guðmundar Pedersen og tryggir hann okkur áfram í EHF keppninni. Lokatölur 28-26.

Samtals voru úrslit þá 58-57 okkar strákum í vil í leikjunum tveimur. Þeir eru því komnir áfram í EHF keppninni og geta m.a. mætt liði Skjern sem Haukamaðurinn Aron Kristjánsson þjálfar og annar Haukamaður, Vignir Svavarsson, leikur með. Það má því segja að Skjern sé draumamótherji Hauka. Dregið verður á morgun, þriðjudag.

ÁFRAM HAUKAR!