Strákarnir okkar töpuðu með einu marki fyrir Arhus á Ásvöllum í dag. Lokatölur 27-28.
Haukar byrjuðu leikinn vel og eftir um sjö mín. leik var staðan 5-2. Þá kom afleitur kafli hjá okkar mönnum og breyttu gestirnir stöðunni í 7-11 á næstu mínútum. Haukar náðu þó að minnka muninn fyrir hálfleik í 14-16. Í síðari hálfleik voru Haukar alltaf að elta og náðu aldrei að jafna leikinn. Munurinn var yfirleitt þrjú til fjögur mörk og fór í fimm mörk um miðjan síðari hálfleik 21-26. Þá komu þrjú Haukamörk í röð og staðan 24-26 og þetta virtist vera að koma, en danirnir voru fljótir að svara og munurinn aftur fjögur 24-28. Aftur þrjú Haukamörk í röð 27-28 þegar um tvær mín. voru eftir og útlitið gott. En þrátt fyrir nokkur tækifæri náðu strákarnir okkar ekki að jafna og urðu að játa sig sigraða.
Strákarnir okkar voru ekki að spila nógu vel, vantaði meiri neista og því miður náðist ekki í stig. Það er súrt því það vantaði svo lítið uppá í lokin.
En það þýðir ekkert að hengja haus, við lítum á björtu hliðarnar, það er nóg af stigum í pottinum og þessi leikur slípar liðið betur saman fyrir næstu átök.