Ísland tapaði fyrir Danmörku 29-22 í leik um bronsið og endaði þar með í fjórða sæti í Evrópumótinu. Danir voru yfir nær allan leikinn, en við vorum þó inní leiknum þar til í seinni hluta síðara hálfleiks er Danir náðu öruggu forskoti. Leikurinn þróaðist svipað og leikurinn í gær, fyrri hálfleikur í lagi en í síðari hálfleik virtist þreytan koma fram, vörnin og markvarslan ekki eins sterk og áður, eins hikstaði sóknin og dauðafærin og hraðaupphlaupin klikkuðu. Markvörður Dana átti reyndar stórleik og lokaði hann á vonir Íslendinga um sigur.
Þrátt fyrir tap í síðustu tveim leikjum geta strákarnir borið höfuðið hátt, því árangur þeirra fór langt fram úr björtustu vonum og eru þeir búnir að stimpla Ísland inn sem eina af sterkustu þjóðunum í boltanum. Strákarnir okkar léku lengst af frábæran handbolta og töpuðu einungis þessum tveim leikjum af átta leikjum á mótinu. Þeir lögðu að velli margar af stærstu þjóðum handboltans og léku á köflum alveg magnaðan handbolta.
Til hamingju með árangurinn strákar. Þið stóðuð ykkur sem hetjur.
Við Haukar erum að sjálfsögðu extra stolt af Haukastrákunum okkar og bjóðum þá velkomna heim eftir frábæran árangur.