Haukar sigruðu KS/Leiftur á Ásvöllum í dag, 2-0. Hilmar Trausti Arnarsson skoraði bæði mörk heimamanna, það fyrra úr vítaspyrnu en það seinna með skoti langt fyrir utan teig.
Haukar komust yfir í leiknum strax á upphafs mínútunum þegar Kristinn Jakobsson dæmdi vítaspyrnu eftir brot á Hilmari Emilssyni sóknarmanni Hauka. Nafni hans og jafnaldri, Hilmar Trausti Arnarsson fór á punktinn og skoraði af öryggi. Óska byrjun fyrir heimamenn.
Næstu mínútur voru rólegar og bæði lið reyndu að sækja, KS/Leiftur vöknuðu til lífsins eftir korters leik en komust aldrei í nein alvöru færi.
Það voru hinsvegar heimamenn sem komust í tveimur mörkum yfir eftir rúmlega hálftíma leik, en þá var Hilmar Trausti aftur að verki með skoti langt fyrir utan teig, yfir Þorvald í marki gestanna, rándýrt mark. En skemmtilega vildi til að rétt áður en Hilmar skoraði markið var hann búinn að biðja um að fá aðra skó þar sem skórnir hans voru orðnir götóttir.
Á 39.mínútu dæmdi Kristinn Jakobsson aðra vítaspyrnu í leiknum. Oliver Jaeger sólaði varnarmenn Hauka en Jónas Bjarnason komst fyrir Jaeger en steig á boltann og féll Oliver Jaeger þá við, Kristinn var ekki í vafa og dæmdi vítaspyrnu. Ede Visinka fór á punktinn en Atli Jónasson sá við honum og varði spyrnuna vel með handboltatöktum en hann varði með fótunum út við stöng.
Síðasta færi fyrri hálfleiks var heimamanna, en þá átti Marco Kirsch sendingu inn í teig frá vinstri þar sem Edilon Hreinsson skallaði boltann að marki norðanmanna en yfir fór boltinn.
2-0 staðan í hálfleik, en í seinni hálfleik sóttu gestirnir með vindinn í bakið.
Og byrjuðu gestirnir seinni hálfleikinn vel, Milos Tanasic átti tvö fyrstu skotin í hálfleiknum að marki Hauka, það fyrra fór rétt framhjá en það seinna varði Atli glæsilega í horn.
Eftir hálftíma leik átti Hilmar Rafn Emilsson fyrsta færi Hauka í seinni hálfleik, en skot hans var afar slappt.
Nokkrum mínútum síðar átti Hilmar Trausti nákvæma sendingu inn fyrir vörn norðanmanna á Edilon Hreinsson sem var með varnarmenn KS/Leifturs á hælunum og skotið hans því slappt en Þorvaldur varði það nokkuð auðveldlega.
Lítið gerðist næstu mínúturnar, en þegar lítið var eftir af leiknum fengu Haukar tvö ákjósanleg færi, fyrra átti Ómar Karl Sigurðsson sem var nýkominn inn á sem varamaður. Edilon átti sendingu inn fyrir á Davíð Ellertsson sem var í góðu skot færi en ákvað að senda fyrir á Ómar sem var í enn betra færi en hann ákvað að skjóta í fyrsta með vinstri, en skot hans nokkuð yfir mark gestanna.
Seinna færið og einnig það síðasta í leiknum átti Hilmar Geir Eiðsson sem einnig kom inn á sem varamaður, eftir fyrirgjöf frá Ediloni fékk Hilmar boltann inn í teig, og hafði góðan tíma til að athafna sig , en þegar hann tók skotið var Grétar Örn Sveinsson kominn fyrir og hoppaði fyrir boltann og bjargaði því vel fyrir sína menn.
2-0 öruggur sigur Hauka staðreynd, en sigurinn var aldrei í hættu. Haukarnir komust með sigrinum í 4.sæti upp fyrir KA, en KS/Leiftur eru enn í bullandi fallbaráttu með 11 stig.
Eftir sigurinn hlupu Andri Marteinsson þjálfari Hauka, Garðar Smári Gunnarsson aðstoðarþjálfari liðsins og Sigurður Stefán Haraldsson liðstjóri liðsins á sundskýlu í kringum völlinn eftir sigurinn, þar sem veðmál var milli leikmanna og þjálfara liðsins
au 23.ágú 2008 17:41 Arnar Daði Arnarsson, arnardadi@fotbolti.net