Gunnlaugur Fannar Guðmundsson hefur gert samning við Knattspyrnudeild Vikings en Gunnlaugur hefur spilað með meistaraflokki Hauka frá árinu 2011 og spilað 100 leiki fyrir félagið. Gunnlaugur spilar í stöðu miðvarðar og hefur verið mikilvægur hlekkur í liði Hauka undanfarin ár og hefur nú ákveðið að reyna fyrir sér í Pepsí deildinni.
Heimir Gunnlaugsson, formaður meistaraflokksráð Víkings, segir félagið binda miklar vonir við Gunnlaug fyrir átökin í Pepsí deildinni næsta sumar. ,,Við í Víkingi höfum haft augastað á Gunnlaugi frá því síðastliðið sumar og töldum hann geta styrkt leikmannahópinn okkar. Hann hefur verið að æfa hjá okkur nú á haustmánuðum og virðist hafa allt sem þarf til þess að geta náð árangri í efstu deild.“
Jón Erlendsson, formaður meistaraflokksráðs Hauka, þakkar Gunnlaugi fyrir gott samstarf undanfarin ár. ,,Gulli hefur verið góður liðsmaður Hauka og félagi undanfarin ár og við óskum honum að sjálfsögðu alls hins besta í Pepsi deildinni næsta sumar og vitum að hann á eftir að standa sig vel.“