Haukastelpurnar eru taplausar í Dominos deildinni með sex sigra og er fyrstu umferðinni lokið.
Í kvöld koma Stjörnustúlkur í heimsókna i Schenkerhöllina og hafa nýliðarnir verið að spila vel í deildinni, komnar með tvo sigra úr sex leikjum en hafa verið að tapa jöfnum leikjum og þar af tveim eftir framlengingu. Haukarnir spiluðu fyrsta leik deildarinnar við Stjörnuna á útivelli og unnu þá góðan sigur í jöfnum og góðum leik. Það má því búast við skemmtilegum leik í kvöld, en bæði lið spila skemmtilegan sóknarbolta.
Stjörnuliðið er með frábæran útlending sem hefur skorað grimmt í vetur en þær hafa auk þess Haukastelpurnar Rögnu Margréti, Kristínu Fjólu, Báru, Hafrúnu og Bryndís í sínum röðum og verður gaman að fá þessar uppöldu Haukastelpur aftur á heimavöllinn og munum við auðvitað taka vel á móti þeim.
Haukaliðið hefur verið að spila mjög vel, þá sérstaklega í seinni hálfleik og hefur það oft verið þannig að andstæðingarnir hafa haldið í okkar lið í fyrri hlutann en svo hafa Haukarnir stungið af í fjórða leikhluta. En nú þurfa stelpurnar að mæta grimmar til leiks og sýna fullan styrk alla fjóra leikhlutana.
Við hvetjum auðvitað alla til að mæta á völlinn og styðja stelpurnar en fyrir þá sem ekki komast á völlinn verður leikurinn sýndur á stöð2 sport rásinni.
Áfram Haukar