Góður lokaleikur á móti Georgetown í Róm

Mourning og EwingSíðasti leikur æfingaferðar Hauka var á móti hinum fræga og góða körfuboltaskóla Georgetown. Georgetown er yfirleitt alltaf meðal 20 bestu skóla bandaríkjanna og í ár eru þeir með gríðarlega efnilegt og gott lið sem sem búist er við að eigi eftir að gera góða hluti í háskólaboltanum í vetur.

Margir frægir NBA leikmenn hafa komið frá Georgetown, s.s. Patrick Ewing sem spilaði með New York, Alonso Mourning sem spilaði með Charlotte og Miami, Allen Iverson sem spilaði með Philly, Roy Hibbert í Indiana og er núna í Lakers. Dikembe Mutombo sem spilaði með Denver og er þekktur fyrir „the finger waving“ og er einn besti varnarmaður sem spilað hefur í NBA.

Í liðinu hjá þeim núna eru nokkrir sem búist er við að eigi eftir að komast í NBA á næstu árum, s.s. sonur Mourning, Trey Mourning, Copeland og Smith-Rivera.

Georgetown er með stóra leikmenn og í byrjunarliði þeirra í dag voru allir leikmenn um og yfir 2 metrar fyrir utan leikstjórnanda þeirra sem er um 190 cm. á hæð og er hann minnsti leikmaður liðsins. Georgetown spilaði stórkostlega vörn allan leikinn og voru mjög fljótir að koma í okkar sóknarmenn og voru hreyfanlegir. Sóknir beggja liða voru ágætar allan leikinn en bæði lið voru kannski ekki að hitta alveg uppá sitt best þar sem varnarleikur liðanna var í fyrirrúmi. Leikmenn Georgetown settu mikla pressu á Haukamenn í vörninni og voru mjög þéttir. Þeir voru stórir og langir og því erfitt að sækja mikið inní teig og var því skotið mikið af langskotum í byrjun.
Strákarnir spiluðu gríðalega þétta vörn og létu andstæðingana hafa mikið fyrir sínum sóknarleik. Er leið á leikinn fór sóknarleikur að verða betri hjá Haukunum og boltinn gekk oft mjög vel í sókninni og menn voru óhræddir að sækja á háa vörn Georgetown.

Georgetown leiddu með 5 stigum í hálfleik en Haukarnir spiluðu frábærlega í þriðja leihluta og náðu mest 6 stiga forystu og leiddu með 1 stigi er fjórði leikhluti byrjaði. Í byrjun fjórða skiptust liðin á að skora og var mikil barátta hjá báðum liðum. Er um 4 mín. voru eftir af fjórða leikhluta náði Georgetown að skora þrjár 3ja stiga körfur í röð en Haukarnir skoruðu aðeins eina 2ja stiga körfu á meðan og því náðu þeir 8 stiga forystu sem þeir létu ekki af hendi það sem eftir var, 10 stiga sigur Georgetown því raunin og geta strákarnir borið höfuðið hátt eftir þennan mikla baráttu leik.
Má búast við því að flestir sem þekkja eitthvað til háskóla boltans hafi búist við stórsigri Georgetown í þessum leik, en annað reyndist raunin. Ljóst er að Haukaliðið er gríðarlega sterkt og má búast við skemmtilegum körfuboltavetri á Ásvöllum.

Ferðin til Rómar hefur verið ævintýri líkast. Spilað við gríðarlega sterka skóla og mikil reynsla komið með þessum leikjum. Liðið spilaði í heildina mjög vel og þá sérstaklega á móti sterku skólunum. Aðeins vantaði uppá leikinn á móti North Dakota en sá leikur tapaðist með 17 stigum en það var sá skóli sem var hvað slakastur og hefðum við átt að ná að sigra þann leik.

Á myndinni eru synir Patrick Ewings og Alonso Mournings, þeir Trey Mourning og Patrick Ewing jr.