Meistaraflokkur karla spilaði í gær, miðvikudag, fyrsta leikinn í úrslitarimmunni um Íslandsmeistaratitilinn en mótherjinn var Afturelding. Þar sem Afturelding endaði ofar í deildarkeppninni þá eru þeir með heimaleikjarétttin í rimmunni og því var fyrsti leikur liðann háður á heimavelli Aftureldingar að Varmá.
Haukamenn mættu grimmir til leiks og ekki að sá á þeim að 2 vikur voru síðan að þeir spiluðu síðast leik og spiluðu Haukar flotta vörn í upphafi sem skilaði sér í auðveldum mörkum úr hraðaupplaupum. Það skilaði Haukamönnum góðu forskoti en eftir um 10 mínútur var staðan orðin 10 – 4 Haukum í vil, Haukarnir héldu svo þessu forskoti út hálfleikinn en þegar liðin gegnu til hálfleiks var staðan 14 – 9 Haukum í vil og staðan því vænleg.
Heimamenn mætti miklu grimmari til leiks í seinni hálfleik og áttu Haukamenn í vændræðum með að skora framhjá flottri vörn heimamanna sem og að Haukamenn áttu einnig í vandræðum með að skora fram hjá Pálmari Péturssyni í marki Aftureldingar. Það skilaði sér í því að Afturelding minnkaði muninn fljótt í 2 mörk og síðar í 1 mark en Haukarnir héldu þó áfram og náðu heimamenn fyrst að jafna í stöðunni 21 – 21 þegar um 3 mínútur lifðu leiks og allt var á suðupunkti í húsinu. Haukarnir náðu að skora næsta mark en Afturelding jafnaði metin jafn harðan og þegar um ein og hálf mínúta var eftir að leiknum misstu Haukar boltann og fengu heimamenn því tækifæri á því að komast yfir í fyrsta sinn síðan í byrjun leiks. Því náðu þeir ekki því eftir tæplega mínútu sókn var dæmd leiktöf á þá og fengu því Haukar möguleika á því að komast yfir á ný.
Haukamenn áttu sem fyrr í vandræðum með að skapa sér góð færi í lokasókinni en svo náði Janus Daði góðu skoti að marki sem fór í stöngina og inn og Haukar ví komnir yfir og 5 sekúndur eftir. Afturelding tók leikhlé og réð á ráðin og eftir leikhléið mættu Haukamenn Aftureldingu framarlega til þess að stöðva sókn Aftureldingar í fæðingu því náðu Haukamenn en ekki þó betur en svo að Einar Pétur fékk rautt spjald fyrri brot sitt á leikamanni Aftureldingar. Fríkast var dæmt og höfðu heimamenn 2 sekúndur til að jafna metin en því náðu þeir ekki og Haukar fögnuðu sigri í fyrsta leik liðanna.
Markahæstir Haukamanna í leiknum voru Janus Daði með 6 mörk og Einar Pétur og Árni Steinn með 5. Í marki Hauka varði Giedrius vel sérstaklega í fyrri hálfleik en hann varði 12 skot og svo varði Einar Ólafur 2 mikilvæg skot undir lok leiks.
Það var fyrst og fremst góður fyrri hálfleikur sem skapaði þennan sigur hjá Haukum þar sem vörnin var góð sem og sóknin en samt sem áður flottur sigur Haukamanna sem eru því komnir yfir 1 – 0 í rimunni en vinna þarf 3 leiki til þess að vera Íslandsmeistari. Það er samt skammt stórra högga á milli hjá þessum liðum því næsta viðureign er strax á morgun, föstudag, en þá mætast liðin í Schenkerhöll okkar Haukamanna kl. 19:30 og um að gera fyrir allt Haukafólk að fjölmenna á leikinn og hjálpa Haukastrákunum að stíga næsta skref í átt að Íslandsmeistaratitlinum. Áfram Haukar!