Fyrsti leikur meistaraflokks karla í Haukum í 1. deildinni í sumar verður á útivelli gegn Víking Ólafsvík nk. laugardag kl. 14:00.
Nánast allir leikmenn okkar liðs eru uppaldir og er spáð 9. sæti í deildinni skv. spá sérfræðinga á Fotbolti.net en í umsögn um liðið segir m.a. að liðið sé gífurlega agað og vel skipulagt undir stjórn Luka Kostic og hafi náð að stríða sterkari andstæðingum á undirbúningstímabilinu.
Um er að ræða afar spennandi og áhugavert tímabil fyrir okkur í Haukum þar sem við byggjum aðmiklu leyti á ungum leikmönnum þar sem margir eru að fá sín fyrstu tækifæri í meistaraflokki ásamt 22-23 ára gömlum leikmönnum sem hafa verið viðloðandi liðið síðustu 3-4 ár en fá nú enn veigameira hlutverk.
Eins og áður greinir er Luca Kostic þjálfari liðsins og honum til aðstoðar er Þórhallur Dan Jóhannsson en þeir tveir hafa þjálfað 2. flokk félagsins síðustu ár og þekkja því drengina afar vel.
,,Þetta eru strákarnir mínir“
Luca var í viðtali við Fotbolti.net á dögunum þar sem fram kom að hann var ekki á leiðinni að þjálfa meistaraflokk aftur en gat hreinlega ekki sagt nei við þessu tækifæri. „Ég verð að viðurkenna ég var alls ekki á leiðnni til að þjálfa aftur meistaraflokka og í upphafi neitaði ég að taka við liðinu en eftir smá umhugsun komst ég að þeirri niðurstöðu að þetta væri eini meistaraflokkurinn í landinu sem ég gat ekki sagt nei við. Í raun og veru þá skulda ég þeim svolítið og þetta eru strákarnir mínir, því þeir gáfu mér fjögur skemmtileg ár í 2. flokki.“
Hvergi smeykur við sumarið
Og Luca er hvergi smeykur við sumarið. ,,Ég hef frábæran mann (Þórhall Dan) með mér og ég þekki getu strákana og því segi ég nei, ég hef ekki verið smeykur í eina sekúndu við að fara með þennan hóp inn í mótið,“ segir Luka en hann er ánægður með undirbúningstímabilið.“
Við hvetjum Hauka-fólk að bregða sér til Ólafsvíkur á laugardaginn og hvetja strákana til sigurs.
Við minnum um leið á fyrsta heimaleik Hauka sem verður gegn Grindavík föstudaginn 15. maí kl. 19:15 en sá leikur verður að sjálfsögðu á Ásvöllum.
Með Hauka-kveðju,
Meistaraflokksráð