Nú þegar vorið er runnið upp og sumarið nálgast óðfluga, má segja að einn skemmtilegasti tími vetraríþróttanna sé runninn upp, úrslitakeppnirnar í handbolta og körfubolta eru komin á fullt.
Á þessum tímapunkti er hægt að staldra við og skoða árangur okkar félags. Haukar eru eitt stærsta félag landsins og ef litið er til árangurs eru fá íþróttafélög sem ná jafn góðum árangri og Haukar. Í dag er félagið okkar að standa í stórræðum, eru í undanúrslitum með bæði karla og kvennaliðið í körfuknattleik og komnir í undanúrslit, enn eitt árið, í karlaboltanum í handbolta eftir tvo frábæra sigurleiki á móti nágrönnum okkar úr FH. Kvennaliðið í handbolta datt út í 8 liða úrslitum en þar fer mjög ungt og efnilegt lið og má búast við miklu af þeim á næstu árum en meiðsli lykilmanna rétt fyrir úrslitakeppni reyndust dýr í lokin.
Það má segja að stuðningsmenn Hauka hafi nóg að gera núna og á síðustu 10 dögum hafa verið leiknir nokkrir mikilvægir leikir hjá bæði handboltanum og körfunni. En nú reynir á okkar fólk. Í kvöld leika strákarnir í körfunni á móti Tindastól, sinn annan leik og því er mikilvægt að sigur náist í þeim leik. Á morgun, laugardag, þá munu stelpurnar í körfunni etja kappi við Keflavík í Schenkerhöllinni og eins og hjá strákunum er um gríðarlega mikilvægan leik að ræða og þarf sigur að nást.
Strákarnir í handboltanum munu keppa við frændur okkar í Val í undanúrslitum og má búast við hörku leikjum hjá þessum tveim stórveldum í handbolta á Íslandi. Strákarnir eiga fyrsta leik í Vodafone höllinni á fimmtudaginn 16. aprí og svo heimaleik laugardaginn 18. apríl.
Næst dagar og vikur eru því gríðarlega mikilvægar fyrir Haukanna og því er mikilvægt að við styðjum félagið eins vel og hægt er og náum eins langt saman sem félag eins og mögulegt er. Árangur í vetur er einstakur og sýnir hve öflugt félag Haukar eru.
Nú nálgast sumarið og því styttist í fótboltasumarið. Haukar munu þar byggja á ungu og efnilegu liði sem byggt verður að mestu leyti á uppöldum leikmönnum. Strákarnir hafa verið að standa sig mjög vel í æfingaleikjum í vetur og vor og hafa verið að spila betur og betur. Ljóst er að Luka og Tóti eru að gera góða hluti og það er spennandi sumar framundan í fótboltanum. En um leið og verið er að byggja liðið upp á ungum leikmönnum þá þurfa þeir stuðning, stuðning sem við Haukafólk getum sýnt með því að mæta á leiki í sumar og styðja við bakið á strákunum.
Eins og sést á framansögðu mun verða nóg um að vera næstu daga, vikur og mánuði.
Áfram Haukar,
Ívar Ásgrímsson
íþróttastjóri Hauka