Olísdeild kvenna hefst að nýju og topplið Fram kemur í heimsókn

Haukar - Fram Nú fer kvennahandboltinn á fullt aftur eftir langt hlé og á laugardaginn taka Haukastelpur á móti Fram í 11. umferð Olísdeildarinnar. Framstúlkur eru á toppi deildarinnar um þessar mundir og jafnframt nýkrýndir deildarbikarmeistarar.
Athugið að það er óvenjulegur leiktími en leikurinn hefst í Schenkerhöllinni kl. 18:00.
Okkar stelpur hafa sýnt í vetur að þær eru í hópi þeirra bestu í deildinni þrátt fyrir að hafa verið óheppnar í nokkrum leikjum. Þær munu mæta fullar sjálfstrausts á móti Fram og ekki gefa neitt eftir. Við skorum á Haukafólk til að mæta á leikinn og hvetja okkar stelpur til sigurs. Þetta er gott tækifæri til að sleppa laugardagssteikinni og fá sér eina með öllu í Schenkerhöllinni. Bjössi tekur „Fúslega“ á móti „auðFúsum“ viðskiptavinum á VIP svæðinu, ætli Fúsi verði ekki með honum. Varla getur nokkur maður „Fúsað“ við því!

Áfram Haukar!