Haukar fá Grindavík í heimsókn

Haukar hefja leik í Domino’s deild karla á morgun, föstudag, þegar að Grindvíkingar koma í heimsókn í Schenker-höllina og hefst leikurinn kl. 19:15.

Haukaliðinu var spáð 6. sæti í deildinni á árlegum fjölmiðlafundi KKÍ en það eru fyrirliðar og forsvarsmenn liðanna sem spá. KR er spáð efsta sæti og eru taldir sigurstranglegastir fyrir komandi mót.

Haukar hafa komið ágætlega undan sumri og spiluðu til að mynda í undanúrslitum Lengjubikarsins þar sem liðið tapaði gegn KR. Fyrir það sigruðu Haukar Stjörnuna í átta liða úrslitum.

Alex Francis kom til liðsins fyrir mót og lítur hann vel út. Það verður spennandi að fylgjast með Haukaliðinu í ár og ætla drengirnir sé enn lengra en á síðasta tímabili.

Grillið verður rifið fram fyrir leikinn og verður Gunni og hans flokkur með safaríka borgara frá kl. 18:30.

Áfram Haukar.