Haukar leika gegn Dinamo Astrakhan ytra á morgun


Árni Steinn í kunnuglegri stellingu á æfingu í Astrakhan í morgunOkkar menn í handboltanum eru mættir til borgarinnar Astrakhan í Rússlandi og munu leika gegn heimamönnum á morgun kl. 18:00 að staðartíma (14:00 ísl.). Ferðalagið var langt og strangt en miðað við fréttir af þeim á Twitter (@Haukarhandbolti) þá virðist allt vera í góðu lagi og æfðu þeir í keppnishöllinni í morgun.

Í spjalli við heimasíðuna fyrir brottför sagði Patrekur þjálfari að það væri mikill hugur í mönnum að klára þetta ytra og fara áfram sérstaklega eftir að hafa rýnt í leikinn heima sem okkar menn töpuðu með tveimur mörkum. „Við þurfum að ganga betur út í skytturnar þeirra, nýta dauðafærin og fá markvörslu í 60 mínútur“ sagði Patrekur meðal annars. Okkur skilst að leikurinn verði ekki sýndur en reynt verður að setja inn stöðuna og þetta helsta á Twitter.