Gott keppnistímabil Hauka

Samúel Guðmundsson formaður HaukaHaukamenn geta litið stoltir og ánægðir til baka yfir liðið keppnistímabil þar sem árangur Hauka hvert sem litið hefur verið með allra besta móti þar sem meistaraflokkar Hauka í hand- og körfubolta skiluðu afar góðum árangri. Á sama tíma hafa Haukar ekki átt fleiri unga og efnilega leikmenn í landsliðsverkefnum sem sýnir þrótt mikið starf Hauka hvert sem litið er.

Meistaraflokkar körfunnar stóðu sig frábærlega í vetur og umfram væntingar. Okkar unga og efnilega karlaliðið endaði í 5.sæti af 12 liðum eftir að hafa komið upp sem nýliðar í deild þeirra bestu. Liðið komst í úrslitakeppnina og tapaði naumlega í 3 leikjum við Njarðvík í 8 liða úrslitum þar sem sigur hefði hæglega getað lent Haukamegin í öllum viðureignunum. Kvennaliðið vann bikarmeistaratitil í mögnuðum leik við Snæfell þar sem liðsheild Hauka og öflugir stuðningsmenn áttu stærstan þátt í sigri stelpnanna. Liðið spilað vel í allan vetur og endaði í 2.sæti deildarinnar og vann síðan Keflavík örugglega í fjögurra liða úrslitum í þremur leikjum. Liðið náði sér síðan ekki á strik í úrslitarimmunni við Snæfell og tapaði naumlega frá sér íslandsmeistaratitlinum.
Yngri flokkar körfunnar áttu góðu gengi að fagna í vetur. Í úrslitum bikarkeppna yngri flokka áttu Haukar flest lið allra félaga eða fjögur lið sem skiluðu einum glæsilegum bikarmeistaratitli í 10 flokki kvenna heim á Ásvelli. Þá komust fjórir flokkar í úrslitaleiki um íslandsmeistara titla sem skiluðu einum íslandsmeistaratitli í drengjaflokki. Sannarlega glæsilegur árangur!

Meistaraflokkar handboltans stóðu sig einnig gríðarlega vel og umfram væntingar í vetur. Okkar unga kvennaliðið tók miklum framförum og náði t.d. að spila í undanúrslitum bikarsins gegn sterku og reynslu miklu liði Vals í leik sem tapaðist naumlega. Liðið endaði um miðja efstu deild og er á hraðri leið með að verða eitt af fjórum sterkustu liðum landsins. Meistaraflokkur karla átti frábært tímabil og umfram væntingar í ljósi mikilla breytinga á leikmannahópnum frá síðasta keppnistímabili. Liðið byrjaði á því að vinna deildarbikarmeistaratitil og síðan bikarmeistaratitil með góðum sigri á ÍR. Haukar voru á toppi efstu deildar allt tímabilið og tryggðu sér örugglega enn einn deildarmeistara titilinn sem er farinn að verða árviss viðburður hér á Ásvöllum. Í fjögurra liða úrslitum spilaði liðið fyrir fullu húsi við FH þar sem gríðarlega öflugur stuðningur Haukamanna varð til þess að snúa erfiðri stöðu við í sigur. Í úrslitarimmunni við ÍBV réðust úrslitin um íslandsmeistaratitilinn á einu marki á lokasekúndum oddaleiksins. Einn magnaðasti handboltaleikur sem farið hefur fram á Ásvöllum fyrir troðfullu húsi þar sem Haukamenn studdu gríðarlega vel við sitt lið sem því miður dugði ekki til sigurs í þetta skiptið. Sérstaklega var ánægjulegt að sjá öflugt samstarf deilda Hauka við gæslu og umgjörð leikja í úrslitakeppninni.

Yngri flokkar handboltans áttu einnig góðu gengi að fagna í vetur og áttu Haukar t.d. fimm flokka í undanúrslitum bikarkeppna. Þá áttu Haukar tvo flokka í úrslitum um íslandsmeistaratitla sem skiluðu glæsilegum íslandsmeistaratitli í 5.fl kvenna í hús á Ásvöllum.

Á árlegri viðurkenningahátíð Hauka á gamlársdag voru tæplega 80 leikmönnum Hauka veitt viðurkenning fyrir að hafa tekið þátt í landsliðsverkefnum á liðnu ári. Aldrei áður í sögu Hauka hafa jafn margir leikmenn Hauka tekið þátt í landsliðsverkefnum og á liðnu ári. Þetta sýnir ljóslega gæði þjálfunar og þann mikla efnivið í framtíðar leikmönnum sem Haukar eru að byggja upp. Þá eru Haukar stoltir af því að eiga um þessar mundir 5 landsliðsþjálfara sem starfa innan fjögurra keppnisgreina.

Allur þessi árangur verður ekki til nema með gríðarlega mikli vinnu sjálfboðaliða, metnaðarfullu og vönduðu starfi þjálfara sem og góðu starfi starfsmanna Hauka. Ég vil nota þetta tækifæri til að þakka öllum starfsmönnum, þjálfurum, styrktaraðilum, stuðningsmönnum og öllum sjálfboðaliðum Hauka fyrir frábæran vetur.

Nú tekur fótboltinn við og vil ég hvetja okkar frábæru stuðningsmenn að styðja fótboltann í þeirri baráttu sem fram undan er við að koma meistaraflokkum fjölmennustu deildar Hauka á ný í efstu deildir karla og kvenna.

 

ÁFRAM HAUKAR

Samúel Guðmundsson formaður Hauka