Haukar komnir 1 – 0 yfir eftir mikinn baráttusigur á Ásvöllum

Sigurbergur skoraði sigurmarkið í kvöld með glæsilegu langskoti. Mynd: Eva BjörkÚrslitaeinvígið á milli Hauka og ÍBV hófst í kvöld í Schenkerhöllinni. Þarna mættust tvö bestu lið landsins í dag og því mátti alveg búast við hörkuleik sem varð raunin. Haukar byrjuðu betur og komust í 4 – 1 og eftir 24. mínútna leik var staðan orðin 12 – 8 en Eyjamenn neituðu að hleypa Haukum lengra frá sér og náðu að jafna fyrir lok fyrri hálfleiks í 15 – 15. Á 25. mínútu kom upp hin goðsagnakennda staða 13 – 10 en komi sú staða upp trúa margir Haukamenn á að leikurinn muni vinnast. Í síðari hálfleik voru það aftur Haukapiltar sem byrjuðu betur og á 34. mínútu var staðan 19 – 16 og okkar menn héldu 1. – 3. marka forystu þar til um miðbik hálfleiksins þegar gestirnir jöfnuðu leikinn, 23 – 23. Síðusti fjórðungur leiksins var æsispennandi. Liðin skiptust á að skora og á 54. mínútu voru gestirnir komnir tveimur mörkum yfir, 26 – 28. En það er mikil seigla í Haukaliðinu og þremur mínútum síðar jafnaði Jón Þorbjörn leikinn 28 – 28. Það var síðan Sigurbergur Sveinsson sem tryggði Haukum sigur með frábæru skoti utan af velli og þrátt fyrir að Eyjamenn fengu gott færi til að jafna leikinn þá tókst það ekki og naumur sigur okkar manna staðreynd.

Giedrius var frábær í markinu síðustu tíu mínútur leiksins en þá varði hann alls 5 skot, þar af eitt vítakast. Elías Már átti mjög góðan leik og var markahæstur með 8 mörk. Árni Steinn og Sigurbergur voru líka magnaðir og skoruðu báðir glæsileg mörk utan af velli ásamt því sem Sigurbergur var duglegur í stoðsendingunum. Tjörvi á líka mikið hrós fyrir sinn leik en hann stýrði sóknarleik okkar manna og gerði líka mikilvæg mörk. Varnarvinnan var einnig til fyrirmyndar og fannst mörgum Haukamanninum dómarar leiksins vísa okkar mönnum fullmikið útaf en Haukar fengu fimm brottvísanir en ÍBV eina. Um þessa dóma er ekki deilt hér og oft þarf fólk að sjá þessi atvik aftur í sjónvarpi til að sjá nákvæmlega á hvað dómarar eru að dæma. Dómarar leiksins Gísli H. Jóhannsson og Hafsteinn Ingibergsson stóðu sig vel og höfðu góð tök á leiknum.  

Mörk Hauka: Elías Már 8, Árni Steinn 6, Sigurbergur 5/2, Tjörvi 4,  Jón Þorbjörn 2, Jónatan Ingi 1, Einar Pétur 1, Þröstur 1, Þórður Rafn 1.
Markvarsla:
Giedrius 9/1 (45%), Einar Ólafur  7 (29%).

Næsti leikur liðanna fer fram í Vestmannaeyjum næstkomandi fimmtudag kl. 19:45. Það verður slegið upp hópferð en þegar þetta er skrifað þá er ekki ljóst með nánari tilhögun en það verður birt um leið og það skýrist.  Áhorfendur voru stórkostlegir í kvöld og vonandi sjá sem flestir sér fært að fylgja liðinu til Eyja. 

Áfram Haukar!