Afmælisdagurinn 12. apríl rann upp sólríkur og fagur, eins og afmælisdagar eiga að vera.
Félagið fagnaði 83 ára afmæli að þessu sinni. Ungt og ferskt félag en um leið félag hokið af reynslu og dásamlegum félögum.
Skokkhópur Hauka hafði að venju veg og vanda að afmælishlaupi, þar sem öllum aldurshópum var boðið að hlaupa, sér og öðrum til gleði og ánægju.
Á hverju ári leikum við okkur með aldur félagsins þegar hlaupalengdir eru ákveðnar. Félagið er sem fyrr segir 83 ára og því urðu hlaupavegalengdirnar þetta árið eftirfarandi:
8,3 km – 3,8km – 830m – 380m.
Það er skemmst frá því að segja að hlaupið heppnaðist með eindæmum vel og alger metþátttaka varð. Hátt í 200 manns á öllum aldri mætti með bros á vör. Hópurinn byrjaði að sjálfsögðu á því að syngja afmælissönginn til heiðurs hinum bráðunga öldungi en svo skelltu allir sér í hlaup og völdu vegalengd eftir aldri og getu. Þeir yngstu enn í barnavögnum en aldursforsetinn kominn vel á áttræðisaldurinn. Það er fátt dásamlegra en að sjá allar þessar kynslóðir sameinast svona á jákvæðan hátt. Allir af yngri kynslóðinni voru leystir út með páskaglaðningi svo allir fóru glaðir frá.
Sjáumst hress í næsta afmælishlaupi að ári.
kv
Anton M
Formaður Skokkhóps Hauka.