Körfuknattleiksdeild Hauka hefur ráðið Ívar Ásgrímsson sem þjálfara beggja meistaraflokka félagsins og mun hann stýra kvenna – og karlaliðum Hauka næstu 2 árin. Ívar þjálfaði mfl. karla hjá Haukum í vetur með frábærum árangri og tók nýlega við kvennalandsliði Íslands fyrir verkefni liðsins sem fyrir liggja í sumar. Það er mikill fengur fyrir körfuknattleiksdeild Hauka að fá þennan reynslumikla þjálfara til að stýra báðum meistaraflokkum félagsins en Ívar hefur gríðarlega mikla reynslu af þjálfun bæði karla – og kvennaliða.
Hann þjálfaði í mörg ár kvennalið ÍS og Hauka, auk þess sem hann var landsliðsþjálfari kvenna á árunum 2004-2005. Hann hefur jafnframt þjálfað karlalið Hauka, Snæfells, ÍA og ÍS. Haukar vænta mikils af þessum samningi við Ívar og er stefnan sett hátt næstu tvö árin.
Samningur Bjarna Magnússonar, sem þjálfað hefur m.fl. kvenna s.l. þrjú ár, er nú útrunninn og er honum þakkað fyrir frábæra frammistöðu og góðan árangur þau þrjú ár sem hann var við stjórnvölinn hjá kvennaliði félagsins. Hann kom liðinu tvisvar í úrslitaleik um Íslandsmeistaratitilinn og einu sinni í bikarúrslitaleik sem Haukastelpur unnu sælla minninga nú á vordögum. Haukar óska Bjarna velgengni og gæfu í þeim verkefnum sem hann mun taka sér fyrir hendur.
Henning Henningsson, formaður kkd. Hauka.