Haukastúlkur toppuðu frábæra seríu með frábærum leik í kvöld sem endaði á 30 stiga rústi er þær unnu Keflavík 88-58.
Áhorfendur fjölmenntu í Schenkerhöllina og var gaman að sjá Haukastúkuna fulla. Haukar kláruðu einfaldlega leikinn í öðrum leikhluta þar sem þær áttu 16-0 kafla og komust Keflavíkurstúlkur ekki í takt við leikinn eftir það.
Lele Hardy átti stórleik og þá sérstaklega í seinni hálfleik þar sem hún skoraði 21 stig en hún var með 32 stig í heildina ásamt 17 fráköstum, 6 stoðsendingum og 6 stolnum boltum.
Næst var Margrét Rósa Hálfdanardóttir með 16 stig, 5 fráköst og glæsilega 70% skotnýtingu.
Gunnhildur Gunnarsdóttir átti magnaðann annan leikhluta þar sem hún skoraði 11 stig en hún endaði leikinn með 13 stig og gerði meira að segja aðeins betur en Margrét Rósa og var með 71% skotnýtingu.
Eftir að hafa aðeins spilað 10 mínútur samtals í fyrstu tveimur leikjunum í einvíginu var Lovísa Björt Henningsdóttir með frábæran leik í kvöld þar sem hún skoraði 12 stig, 4 fráköst og 5 varin skot.
Dagbjört Samúelsdóttir var með 8 stig og 5 fráköst og skoraði hún stigin sín á stuttum kafla í lok fyrsta leikhluta og byrjun annars.
Sylvía Rún Hálfdanardóttir og Inga Rún Svansdóttir fengu að spreyta sig seinustu þrjár mínútur leiksins og náði Inga Rún að skora 2 stig, taka 2 fráköst, sóknar sem og varnarfrákast ásamt því að gefa stoðsendingu. Aldeilis glæsileg innkoma hjá henni.
Umfjöllun um leikinn á Karfan.is
Umfjöllun um leikinn á Gaflari.is
Umfjöllun og viðtöl á Visir.is
Umfjöllun um leikinn á Mbl.is
Viðtöl úr leiknum á Karfan.is
Myndasafn eftir Axel Finn Gylfason
Tölfræði leiksins