Í tilefni af því að úrslitin í Coca Cola bikarnum fara fram um helgina þá hefur heimasíðan sett sig við samband við leikmenn og þjálfara og tekið þá í stutt spjall. Sá sem ríður á vaðið er fyrirliði karlaliðsins, Matthías Árni Ingimarsson, og báðum við hann um að svara nokkrum spurningum.
Nú er langt gengið á tímabilið hjá ykkur og staðan er 1. sæti í deildinni, Deildarbikarmeistarar og Final 4 í bikarnum. Ertu sáttur með frammistöðu liðsins og er hún í takt við þær væntingar sem þið höfðuð fyrir tímabilið?
Já það er ekki hægt annað en að vera ánægður með stöðuna í dag þar sem liðinu er búið að ganga vel. En það er að sjálfsögðu nóg eftir af deildinni og við í liðinu erum kröfuharðir á okkur sjálfa þannig að við erum langt frá því að vera saddir og munum halda áfram í að gefa okkur alla í baráttuna á öllum vígstöðvum.
Nú töpuðuð þið síðasta leik í deildinni og þetta var fyrsta tap ykkar í langan tíma ertu ekki hræddur um að þetta tap geti slegið ykkur út af laginu?
Í síðasta leik hjá okkur náðum við ekki að finna rétta taktinn í leik okkar, en þjálfararnir eru búnir að greina þann leik hjá okkur og við munum nýta okkur þá greiningu í að bæta okkar leik. Við látum þetta ekki slá okkur útaf laginu, heldur læra af leiknum og nýta hann bara sem smá spark í rassinn.
Núna eru úrslitin í bikarnum framundan hvernig leggst það í þig og restina af Haukaliðinu?
Þetta er markmið sem öll lið setja sér í upphafi tímabils, að komast í úrslitahelgina í höllinni. Liðið er mjög vel stemmt fyrir leikinn og menn er tilbúnir að leggja allt í sölurnar til þess að komast alla leið í keppninni í ár.
Leikurinn sem er framundan í undanúrslitum er Hafnarfjarðarslagur gegn FH og er það 4. viðureign liðanna á tímabilinu. Hvernig er þín upplifun á þessum Hafnarfjarðarslögum?
Þetta eru skemmtilegustu leikirnir sem ég tek þátt í frá því að ég byrjaði að spila með meistaraflokki og ekki skemmir þegar þeir eru spilaðir fyrir fullu húsi. Auðvitað skipta allir leik í deild og bikar máli en það er alltaf auka tilhlökkun og spenna þegar maður mæti FH og maður virðist alltaf finna þessa auka orku sem þarf til þess að gíra sig upp fyrir grannaslaginn.
Hvernig leikur verður þetta? Má búast við að þessi leikur verði eins og deildarleikir liðanna eða er það öðruvísi þegar bikarúrslit eru í húfi?
Bikarinn er alltaf sérstakur og leikir við FH er alltaf hörku viðureignir. Bæði liðin eru að fara að gefa allt í leikinn til að komast í úrslitin á laugardag. Það má því búast við spennandi leik og mun það ekki skemma fyrir ef Hafnfirðingar fylla Höllina á föstudaginn.
Nú hafa Haukar unnið bikarinn 6 sinnum og þar á meðal þú. Er sú reynsla ekki mikilvæg þegar að út í svona leik er komið?
Að vinna bikarúrslitin er alveg einstök tilfinning og sú reynsla sem kemur með því er því ómetanleg og nýtist manni klárlega þegar kemur að leikjum í keppninni. Við erum með góða blöndu af leikmönnum sem hafa spilað mikilvæga spennu leiki og strákum sem eru að koma upp og fá reynslu, þannig að svona leikir fara í reynslubankann hjá öllum í liðinu.
Nú eruð þið í efsta sæti í deildinni og búnir að vinna alla leiki gegn FH í vetur. Setur það ekki meiri pressu á ykkur?
Það má ekkert gefa eftir eða misstíga sig þegar kemur að bikarnum og það á við um öll lið. Við erum búnir að vinna vel í vetur fyrir þessu efsta sæti og munum nýta það sem hvatningu frekar en pressu.
Eitthvað að lokum sem þú vilt koma á framfæri?
Mig langar að hvetja allt Haukafólk til þess að mæta í rauðu í Höllina á leikina hjá liðunum og sýna hversu öflugt okkar fólk er þegar kemur að því að styðja við bakið á sínum liðum.
Karlaliðið mætir FH á föstudaginn kl. 20:00 í undanúrslitum og stelpurnar mæta Val á fimmtudaginn einnig kl. 20:00 en báðir leikirnir fara fram í Laugadalshöll. Upphitun hefst á Ásvöllum báða daga kl. 18:00 og rútur fara síðan í Höllinn kl. 19:00 og taka einnig fólk til baka.
Mætum öll í rauðu og styðjum Hauka til sigurs í bikarnum. Áfram Haukar!