Jafntefli hjá stelpunum í miklum spennuleik

Karen Helga Díönudóttir er fyrirliði mfl. kvenna og skoraði 9 mörk gegn Gróttu í gærÍ gær tóku stelpurnar í handboltanum á móti Gróttu í Olísdeildinni. Þetta reyndist vera enn einn háspennuleikurinn hjá stelpunum.
Fyrri hálfleikurinn var tíðindalítill, Haukastúlkur undir frá fyrstu mínútu og munurinn varð mest fjögur mörk en staðan í hálfleik var 15 – 17. 
Þegar fimm mínútur voru liðnar af seinni hálfleik jöfnuðu Haukarnir og voru síðan yfir allan seinni hálfleikinn eða þar til hálf mínúta var eftir af leiknum en þá byrjaði mikill darraðadans. Gróttustúlkur jöfnuðu en Haukarnir komust aftur yfir 33 – 32 og þegar markmaður Gróttu sótti boltann í netið, eftir síðasta mark Hauka, voru 10 sekúndur eftir. Nokkrum sekúndum síðar var boltinn kominn í net Haukastúlkna og jafntefli staðreynd 33 – 33. Þessar síðustu sekúndur voru magnaðar og þetta gerðist allt svo hratt að allir sáttu eftir furðulostnir.
Gaman er að fylgjast með ört vaxandi Haukastúlkum og er óhætt að segja að fyrirliði liðsins, Karen Helga Díönudóttir sé að stimpla sig inn sem einn af betri miðjumönnum deildarinnar. Karen og Marija voru markahæstar í gær, báðar með 9 mörk.

Næsti leikur hjá stelpunum er stórleikurinn gegn Val í undanúrslitum Coca Cola bikarsins sem leikinn verður næstkomandi fimmtudaginn kl. 20:00 í Höllinni. Mikilvægt er að þeir sem ætla á leikinn, og karlaleikinn á föstudaginn, kaupi miða í forsölu á Ásvöllum og styrki þannig Hauka. Næsti leikur hjá stelpunum í Olísdeildinni er síðan gegn ÍBV í Eyjum laugardaginn 8. mars kl. 13:30.

Áfram Haukar!