Á morgun, sunnudag, tekur eldra ár 4. flokks karla á móti galvöskum Eyjapeyjum í Schenkerhöllinni í undanúrslitum Coca Cola bikarsins. Leikurinn hefst kl. 14:00 og hvetjum við Haukafólk til að mæta og styðja strákana. Haukaliðið lagði Val og Stjörnuna í fyrri umferðum bikarkeppninnar en liðið er sem stendur í 8. sæti deildarinnar á meðan að Eyjaliðið er fjórum sætum ofar. Yngra ár 4. flokks karla er þegar búið að tryggja sér þátttökurétt í úrslitum bikarsins eftir frækinn sigur á Þór fyrir norðan en sá leikur fór í framlengingu fyrir fullu húsi en Haukastrákunum tókst að landa sigri þrátt fyrir að vera um skeið tveimur leikmönnum færri í framlengingunni. Þjálfari 4. flokks er Elías Már Halldórsson sem etur kappi við FH í undanúrslitum í meistaraflokki á föstudaginn.