Strákarnir okkar fóru í kvöld í Digranesið og mættu liði HK í Olísdeildinni. HK beið mikið skipbrot í síðasta leik gegn Val og það var vitað að þeir myndu reyna að selja sig dýrt í kvöld, þó ekki væri nema fyrir heiðurinn. Í byrjun leiks var ekki að sjá að nein breyting hefði orðið á HK liðinu. Haukar komust í 0 – 9 og heimamenn náðu ekki að skora fyrr en um 19 mínútur voru liðnar af leiknum. Á síðustu 11 mínútum fyrri hálfleiks náðu heimamenn að laga stöðuna og 7 – 12 var staðan í hálfleik. Seinni hálfleikur einkenndist að miklu leyti af mistökum og rislágum handbolta. Haukamenn duttu niður á sama plan og HK og við það sat. Lokatölur leiksins voru 16 – 22.
Það verður að segjast eins og er að það var lítill meistarabragur á Haukaliðinu í kvöld og áhangendur Hauka margir ósáttir með spilamennskuna. Skrýtið að það skuli vera neikvæðni í gangi eftir sigurleik en málið er að Haukafólk veit hvað býr í þessu liði og hlakkar til að styðja við bakið á því í hverjum leik en fólk vill sjá 100% einbeitingu og baráttu allan tímann.
Sá leikmaður sem stóð upp úr í kvöld var Einar Ólafur Vilmundarson en hann átti stórleik og varði 21/1 skot í markinu.
Mörk Hauka: Einar Pétur Pétursson 5, Jón Þorbjörn Jóhannsson 5, Sigurbergur Sveinsson 4/2, Tjörvi Þorgeirsson 2, Elías Már Halldórsson 2, Jónatan Ingi Jónsson 1, Þröstur Þráinsson 1, Egill Eiríksson 1, Árni Steinn Steinþórsson 1. Einar Ólafur Vilmundarson varði 21 skot og þar af eitt víti og Giedrius Morkunas varði 1/1.
Áfram Haukar!