Nær allir yngri flokkar handboltans í undanúrslitum Coca Cola bikarsins

Vilborg, Íris og Anna eru meðal fjölmargra leikmanna yngri flokka félagsins sem eru komin í undanúrslit bikarkeppninnarMeistaraflokkar karla og kvenna tryggðu sér fyrir stuttu sæti í undanúrslitum Coca Cola bikarsins, eins og flestir vita. Þau eru þó ekki ein um það. Nær allir yngri flokkar félagsins eru komnir í undanúrslit í bikarnum og á næstu dögum mun ráðast hversu margir þeirra komast í úrslit en þau fara fram sunnudaginn 2. mars í Laugardagshöllinni, daginn eftir að úrslitin ráðast hjá meistaraflokkunum. Haukar eru stoltir af frábærum árangri yngri flokka félagsins. Hér að neðan er umfjöllun um þær viðureignir sem framundan eru en 3. flokkur kvenna hefur leik þar sem þær halda í Safamýrina í kvöld og etja kappi við Framstúlkur um sæti í úrslitum.

3. fl. kvenna : Fram – Haukar
Í kvöld, fimmtudaginn 13. febrúar, fer fram undanúrslitaleikur Fram og Hauka í bikarkeppni 3. flokks kvenna. Haukastúlkur komust í undanúrslitin með því að leggja bæði Fylki og Gróttu að velli. Búast má við erfiðri viðureign í kvöld þar sem Framliðið er öflugt og vermir 2. sæti deildarinnar á meðan að Haukar eru sem stendur í 5. sæti, en eiga reyndar leiki inni. Liðin öttu klappi í október í haust á heimavelli Hauka en Framstúlkur fóru með eins marka sigur af hólmi. Þjálfari Haukaliðsins er Halldór Á. Ingólfsson og honum til aðstoðar er Jens Gunnarsson.

2. fl. karla: Afturelding – Haukar
Mánudaginn 17. febrúar liggur leið 2. flokks karla í Mosfellsbæinn þar sem þeir mæta Aftureldingu í undanúrslitum Coco Cola bikarsins. Strákarnir unnu Fram og Gróttu í fyrri umferðum keppninnar. Haukar og Afturelding mætast reyndar einnig í deildinni á morgun, föstudag, í Strandgötunni en fyrri viðureigninni í deildinni lauk með sigri Hauka 27-22. Haukastrákarnir eru sem stendur í 4. sæti á meðan að UMFA er í 6. sæti en eftir færri leiki. Þjálfari Haukaliðsins er Einar Jónsson.

3. flokkur karla: Haukar – Selfoss
Sunnudaginn 16. febrúar tekur 3. flokkur karla á móti Selfossi í undanúrslitum bikarkeppninnar. Leikurinn fer fram á Strandgötunni kl. 15:40. Haukaliðið hafði heldur betur fyrir því að komast í undanúrslitin en liðið lagði Fjölni/Fylki og Val með litlum mun en sigraði Þrótt nokkuð örugglega. Það má sömuleiðis búast við hörkurimmu á sunnudaginn gegn Selfossi því þarna takast topplið deildarinnar á um sæti í úrslitum bikarsins. Þjálfari Haukaliðsins er Einar Jónsson.

4. fl. karla – eldra ár: Haukar – ÍBV
Sunnudaginn 23. febrúar mæta galvaskir Eyjamenn í Schenkerhöllina og etja kappi við eldra ár 4. flokks karla. Leikurinn hefst kl. 14:00. Haukaliðið lagði Val og Stjörnuna í fyrri umferðum bikarkeppninnar en liðið er sem stendur í 8. Sæti deildarinnar á meðan að Eyjaliðið er fjórum sætum ofar. ÍBV vann leik liðanna fyrr í vetur í Eyjum með þremur mörkum. Þjálfari Haukaliðsins er Elías Már Halldórsson.

4. fl. kvenna – yngra ár: Haukar – ÍBV
Laugardaginn 22. febrúar tekur yngra ár 4. flokks kvenna á móti ÍBV en leikurinn fer fram kl. 13:30 í Strandgötunni. Haukastelpurnar unnu Stjörnuna og Fylki í fyrri umferðum bikarkeppninnar. ÍBV er með hörkulið og er á toppi deildarinnar á meðan að Haukastelpurnar eru í 5. sæti. ÍBV vann leik þessara liða fyrr í vetur en hann fór fram í Vestmannaeyjum. Þjálfari Haukaliðsins er Jens Gunnarsson og honum til aðstoðar í leikjum hefur verið Sigurjón Sigurðsson, þjálfari 5. flokks kvenna en fjölmargar stelpur í þessum hópi koma einmitt þaðan.

4. fl. karla – yngra ár: Þór Akureyri – Haukar
Föstudaginn 21. febrúar heldur yngra ár 4. flokks karla til Akureyrar þar sem þeir mæta Þór í undanúrslitum bikarkeppninnar. Hér er um slag toppliða deildarinnar að ræða en Haukar eru í 2. sæti, einu stigi á eftir Þór en eiga leik til góða. Fyrri leik liðanna lauk með sigri Þórs 19-16 stuttu fyrir jól. Haukaliðið tryggðu sér sæti í undanúrslitum með því að leggja HKR og HK að velli í fyrri umferðum. Þjálfari Haukaliðsins er Elías Már Halldórsson.

Ekki er keppt í bikarkeppni í 5.-8. flokki. Við hvetjum stuðningsfólk Hauka til að fjölmenna á leikina hjá yngri flokkum félagsins. Áfram Haukar!