Haukar upp í 5. sætið eftir góðan sigur á Stjörnunni

Mynd: Axel Finnur

Haukar bundu enda á fjögra leikja taphrinu sína í gær þegar þeir lögðu nágranna sína úr Garðabæ, 76-67, og lyftu sér fyrir vikið upp í 5. sæti Domino‘s deildarinnar. Allt annað var að sjá til drengjanna sem virðast hafa fundið gleðina fyrir leiknum og var stemmingin í Haukaliðinu frábær.

Haukar leiddu með sjö stigum eftir fyrsta leikhluta og komust mest 13 stigum yfir í öðrum leikhluta. Stjörnumenn svöruðu þá með góðum spretti og munaði aðeins fjórum stigum á liðunum í hálfleik, 40-36.

Þriðji leikhluti var ekki góður fyrir Haukaliði og bitu Stjörnumenn vel frá sér og komust að endingu yfir. Stjörnumenn voru að stríða Haukum í frákastabaráttunni og fyrir loka leikhlutann leiddu þeir fráköstin með 15 og leikinn með þremur.

Haukaliðið tók þessum kafla Stjörnunnar með jafnaðargeði og spýttu í lófana í fjórða. Haukar unnu leikinn að endingu 76-67 og börðust um alla lausa bolta. Að endingu höfðu Haukar tekið tveimur fleiri fráköst en Stjarnan, 52 gegn 50, sem sýnir best baráttuna í liðinu í fjórða leikhluta.

Terrence Watson var í miklu stuði og virðist vera að finna sig aftur eftir smá lægð. Watson setti niður 29 stig, tók 20 fráköst og varði 5 skot. Emil Barja var með 14 stig og 4 stoðsendingar, Haukur Óskarsson gerði 12 stig og Kristinn Marinósson átti glimrandi leik með 9 stig og 10 fráköst.

Tölfræði leiksins

Tengt efni:
Haukar bundu enda á taphrinuna – Tvennu-Watson öflugur
Karfan TV: Okkur langar að vera í 5. sætinu
Myndasafn úr leiknum
Mikilvægur sigur Hauka á Stjörnunni
Emil: Fráköstin lykillinn að sigrinum
Haukar upp fyrir Stjörnuna