Haukar komnir í Höllina eftir baráttusigur á Val

Einar Ólafur Vilmundarson var frábær milli stanganna síðasta hluta leiksinsÍ kvöld léku Haukar gegn Val í 8 liða úrslitum Coca Cola bikarkeppninnar og leikið var á heimavelli Vals að Hlíðarenda. Valsmenn komu fullir sjálfstrausts til leiks og áttu Haukar í mesta basli með að skora ásamt því sem skyttum Valsmanna varð allt að vopni. Þegar vel var liðið á fyrri hálfleik var munurinn orðin 6 mörk, 6 – 12. Þjálfarateymi Hauka vissi að þessu yrði að snúa við og þeir brugðu á það ráð að taka markvörðinn útaf og setja 7. manninn í sókn. Það bragð heppnaðist og Haukar söxuðu á forskot Valsmanna og í hálfleik var munurinn kominn niður í 2 mörk, 13 – 15. Þess má geta að á 27. mínútu kom upp hin goðsagnarkennda staða, 10 – 13, þegar Adam Haukur minnkaði muninn með góðu marki.

Í byrjun síðari hálfleiks voru Valsmenn aðeins á undan og náðu að halda okkar mönnum í fjarlægð þar til á 41. mínútu þegar Elías Már Halldórsson jafnaði leikinn  úr hraðaupphlaupi. Þrátt fyrir þetta voru Valsmenn alltaf einu eða tveimur mörkum yfir alveg þar til á 56. mínútu þegar Jón Þorbjörn kom Haukum yfir með marki af línunni og var þá staðan 24 – 25. Síðustu mínútur leiksins voru æsispennandi en Haukar höfðu þá snúið leiknum sér í vil og virtust líklegri til að klára dæmið sem reyndist raunin. Tjörvi Þorgeirsson skoraði sigurmarkið þegar hann kom Haukum yfir 26 – 27 og þá lifðu aðeins 38 sekúndur eftir af leiknum. Valsmönnum tókst ekki að nýta tímann til að jafna og flottur Haukasigur var staðreynd og eru nú bæði liðin okkar í meistaraflokki komin í „final four“ í Höllinni. Þess má geta að nokkur lið í yngri flokkum félagsins eiga líka möguleika á að ná að komast í Höllina, við segjum betur frá því þegar þau mál skýrast.

Markahæstur Haukamanna í kvöld var Jón Þorbjörn með 6 mörk, þar á meðal þrjú mjög mikilvæg á lokasprettinum. Einnig átti Einar Ólafur markvörður frábæra innkomu, varði vel á síðustu mínútunum og átti stóran þátt í að sigur vannst í þessum spennandi leik.

Mörk Hauka: Jón Þorbjörn 6, Árni Steinn 4, Elías Már 4, Þórður Rafn 4, Adam Haukur 3, Sigurbergur 2/1, Tjörvi 2. Giedrius varði 10/1 og Einar Ólafur 5.

Það verður að segjast að Haukafólki fannst ekki mjög íþróttamannslega að verki staðið þegar stuðningsmannasveit Vals söng og trallaði þegar okkar menn höfðu fengið högg og þurftu aðhlynningu.

Næsti leikur okkar manna er nætkomandi fimmtudag, 13. febrúar, gegn HK í Digranesi. 

Áfram Haukar!