Haukamenn á toppi tölfræðilista

Terrence trónir á toppi þeirra sem varið hafa flest skot

Það hefur ekki farið fram hjá neinum sem fylgist með íslenska körfuboltanum að Haukar hafa byrjað tímabilið með glans og sitja í 5. sæti deildarinnar með 8 stig, jafnt af stigum og Njarðvík og Grindavík. Haukar mæta einmitt Njarðvíkingum í næstu umferð og get með sigri plantað sér í þriðja eða fjórða sætið.

Leikmenn Hauka raða sér svo nokkuð ofarlega í helstu tölfræði þáttum deildarinnar og er Terrence Watson í öðru sæti yfir flest skoruð stig en aðeins munar 0.33% á meðaltalsskori hans og Mike Cook Jr. hjá Þór Þorlákshöfn sem situr í efsta sæti. Cook hefur skorað 171 stig á meðan Watson hefur skorað 169.
Enginn annar Haukamaður nær inn á topp listann yfir flest skoruð stig en Haukur Óskarsson er í 27. sæti með 14,83 og Kári Jónsson í 38. sæti með 10,5.

Emil Barja trónir á toppi stoðsendingarhæstu leikmanna deildarinnar með 51 stoðsendingu eða 8,5 stoðsendingar að meðaltali. Elvar Már Friðriksson í Njarðvík er næstur honum með 42 stoðsendingar eða 7 að meðaltali. Terrence Watson er í 25. sæti og Davíð Páll Hermannsson og Helgi Björn Einarsson eru í 39. og 40. sæti.

Watson situr í efsta sæti yfir flest fráköst að meðaltali í leik með 16,17. Hann hefur tekið alls 97 fráköst í deildinni og er með sjö fráköstum meira en Chris Woods í Val sem er í öðru sæti. Emil Barja situr svo í 17. sæti með 7,83 að meðaltali og Svavar Páll Pálsson er næstur honum í 30. sæti.

Það skal engan undra að Terrence Watson trónir á toppi þeirra sem varið hafa flest skot. Hann hefur varið 24 slík sem gera 4 að meðaltali en næstur honum er Ragnar Nathanaelsson hjá Þór Þorlákshöfn sem varið hefur 18 bolta. Ragnar varði alls 10 bolta í fimmtu umferð og ef hann heldur því áfram þá gæti Terrence þurft að taka sig saman í andlitinu og loka enn betur á skot andstæðinganna.
Emil Barja er í 6. sæti með 11 varin skot eða 1,83 að meðaltali og Sigurður Þór Einarsson og Haukur Óskarsson eru í 17.-18. sæti með 4 varin skot hvor eða 0,67 mtl.

Terrence er aftur á ferðinni í framlagspunktum en þar er hann í efsta sæti með 38,50 að meðaltali í framlag. Emil Barja er í því 20. með 20,17 og Haukur Óskarsson í því 39. með 11,33 að meðaltali.