Ísfirðingar litu við á Ásvelli á föstudagskvöldið þegar Haukar og KFÍ mættust í sjöttu umferð Domino‘s deildarinnar og höfðu okkar menn betur 73-67. Haukar áttu erfitt uppdráttar og gekk þeim illa að skora í körfu gestanna og var það ekki fyrr en undir lok leiks að allt small í gang.
KFÍ byrjuðu með látum og komust fljótlega í 4-10. Haukar rönkuðu þá við sér og leiddu eftir leikhlutann 20-15. Mestum mun náði Haukaliðið í öðrum leikhluta þegar strákarnir komust 11 stigum yfir, 28-17, og lítið sem benti til þess að leikmenn KFÍ myndu gera atlögu að þessum mun. Annað kom upp á teninginn og munaði ekki nema þremur stigum á liðunum í hálfleik 36-33.
KFÍ komst yfir fljótlega í þriðja leikhluta og hélt forustunni allt þar til ein og hálf mínúta lifði leiks. Haukar hrukku þá í gang og jöfnuðu leikinn og skoruðu á loka kaflanum átta stig gegn tveimur frá KFÍ og unnu leikinn á endanum með sex stigum 73-67.
Terrence Watson var stigahæstur Hauka með 25 stig og 20 fráköst og Kári Jónsson átti flottan leik með 16 stig og 4 stolna bolta.
Tölfræði leiksins
Tengdar fréttir:
Haukar hrukku í gang í lokin
Myndasafn eftir Axel Finn
Haukarnir upp í fimmta sætið
KFÍ á botninum áfram án stiga