Haukar mæta ríkjandi Íslandsmeisturum Grindavík í annarri umferð Domino‘s deildar karla á föstudaginn næstkomandi en Haukar fóru vel af stað í deildinni og sigruðu Val í fyrstu umferð. Grindvíkingar, sem spáð var 5. sæti deildarinnar fyrir tímabilið, náðu sér ekki á strik gegn KR í síðasta leik og nokkuð öruggt að þeir muni koma vel stemmdir inn í leikinn gegn Haukum.
Haukar hafa því verðugt verkefni fyrir höndum en geta hæglega tekið leikinn í sínar hendur. Ívar Ásgrímsson, þjálfari liðsins, segir að til þess þurfi betri nýtingu fyrir utan þriggja stiga línuna og að Haukaliðið þurfi að halda áfram að berjast í vörn og fráköstum líkt og það gerði í leiknum gegn Val.
„Grindvíkingar eru alltaf með sterkt lið og þó svo að þeim sé spáð lakara gengi á þessu ári en þeim hefur verið spáð síðustu tvö ár eru þeir með gríðarlega sterkan mannskap og byggja að megninu til á sama hóp og síðustu ár,“ sagði Ívar í samtali við Hauka.is í dag.
Haukar unnu fínan sigur á liði Vals í síðustu umferð en Ívar segir að liðið hefði mátt klára leikinn fyrr og að hittni leikmanna hafi ekki verið sem skildi fyrir utan þriggja stiga línuna.
„Við unnum síðasta leik nokkuð örugglega en vantaði samt að klára leikinn fyrr. Við leiddum allan leikinn og vorum alltaf að ná 10 – 15 stiga forystu en Valsmenn náðu alltaf að komast aftur inní leikinn. Til þess að ná að klára þessa leiki þá þurfum við að hitta betur fyrir utan 3ja stiga línuna og er það í raun megin ástæðan fyrir því að við náum ekki að hrista þá af okkur. Við hittum einungis úr þrem þriggja stiga skotum allan leikinn af tuttugu og þar af kom eitt á lokasekúndu leiksins.“
Þegar hann var spurður út í hverju Haukaliðið þyrfti að breyta til að sigra á föstudaginn sagði Ívar: „Við þurfum betri nýtingu fyrir utan þriggja stiga línuna og á móti Val þá vorum við að taka góð skot en þau vildu ekki ofaní. Baráttan í vörninni og í fráköstum var til fyrirmyndar og við þurfum að halda því áfram en bæta skotnýtingu á móti Grindavík,“ og bætti svo við.
„Við eigum ágætis möguleika á því að ná sigri á föstudaginn en til þess þurfum við að fá yfir 15 stig fyrir utan þriggja stiga línuna og spila góða vörn. Grindvíkingar skjóta mikið af þriggja stiga skotum og reyna að sækja á körfuna en þeir hafa ekki marga stóra leikmenn og því þurfum við að vera grimmir í vörninni og láta þá taka erfið skot. Við þurfum líka að stjórna hraða leiksins og passa að tapa ekki mörgum boltum á móti þessu lið.“