Slæm byrjun á tímabilinu

 Haukastúlkur hafa ekki byrjað tímabilið að óskum en þær eru búnar að tapa fyrstu tveimur leikjunum.
Fyrst á móti Keflavík á afar svekkjandi hátt þar sem þær voru með yfirhöndina þar til rétt í lokin, og svo í kvöld á móti Njarðvík.

 

Haukar byrjuðu leikinn betur og Sylvía Rún Hálfdanardóttir átti ansi hreint magnaða innkomu í fyrsta leikhluta. En Njarðvík tóku völdin í seinni hálfleik og var ekki nóg að hafa bara Lele Hardy að spila samkvæmt getu. Og þvílíkur leikur hjá henni, grátlega nálægt fjórfaldri tvennu með 33 stig, 16 fráköst, 9 stoðsendingar og 8 stolna bolta, eitthvað sem hefði verið forsíðu efni í sigri en fellur því miður í skuggann á tapinu.

Góðu fréttirnar eru þær að Íris Sverrisdóttir er mætt aftur á parketið og spilaði í rúmar 3 mínútur. Þar á meðal deildi hún meira að segja tíma á gólfinu með Guðrúnu Ósk Ámundadóttur og var það mjög fögur sjón að sjá.

Einnig eru meiðsli Gunnhildar Gunnarsdóttur ekki mikil og ætti hún að vera klár í næsta leik. 

Ekki virðist þó vanta mikið upp á hjá Haukum til að sýna fram á að þær geti staðist við spá vetrarins.

Umfjöllun um Haukar-Njarðvík hjá karfan.is

Umfjöllun um Keflavík-Haukar hjá Karfan.is