Haukar mæta Valsmönnum í kvöld

Það styttist óðfluga í leik fyrsta leik Hauka í Domino‘s deild karla en Valsmenn koma í heimsókn á Ásvelli í kvöld. Fróðlegt verður að sjá hvernig þessi tvö lið eiga eftir að plumma sig í deild þeirra bestu en bæði komu upp í úrvalsdeild á ný eftir stutta veru í 1. deildinni.

Mínútu þögn verður fyrir leikinn í kvöld til að heiðra minningu Ólafs Rafnssonar fyrrum forseta Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands, forseta FIBA Europe og formanns KKÍ. Ólafur var okkur Haukamönnum kær en hann var bæði leikmaður og þjálfari meistaraflokks karla um árabil á níunda og tíunda áratug síðustu aldar. Við hvetjum því allt Haukafólk til að mæta snemma og heiðra minningu Óla.


Leikurinn hefst kl. 19:15 og verður Gunni mættur á grillið til að matreiða safaríka borgara ofan í liðið frá 18:30. Gunni hefur ákveðið að fá til sín gestagrillara í vetur og munu kempur á borð við Marel Örn Guðlaugsson og Pétur Ingvarsson mæta á grillið í einhverjum leikjum og verða Gunna til halds og trausts. 
Gunnar Birgir Sandholt mun hins vegar ríða á vaðið og verða fyrsti gestagrillarinn í vetur. Þeir sem leggja leið sína upp á Ásvelli fyrir leik ættu því ekki að vera sviknir þar sem Gunnar Sandholt er matmaður mikill og hefur sterkar skoðanir hvernig hamborgarar eiga að vera.

Það vill svo til að Ísland mætir Kýpur í undankeppni HM í knattspyrnu á föstudaginn og ákveðið hefur verið að hafa leikinn á tjaldi á Ásvöllum. Þeir sem eru því á báðum áttum hvort þeir eigi að líma sig fastann fyrir framan sjónvarpsskjáinn eða mæta á Ásvelli hafa nú enga ástæðu til þess að mæta ekki og geta því spunnið þessa tvo viðburði saman. Það er því um að gera að mæta, skella í sig börger og bauk og hvetja Haukaliðið til sigurs.

Þjálfarar Haukaliðsins munu kíkja inn á pall ca. 30 mín fyrir leik og fara yfir helstu áherslur leiksins og jafnvel reyna að svara spurningum ef einhverjar eru.

Venju samkvæmt mun Coca Cola skotið og Fjarðarkaupsskotið halda áfram á leikjum þar sem gestum gefst kostur á að vinna sér inn inneignarkort hjá Fjarðarkaupum eða 10 kassa af Coke.