Handboltinn byrjar að rúlla í kvöld

Flottir stuðningsmenn Hauka

Meistaraflokkur karla í handbolta spilar í kvöld sinn fyrsta keppnisleik á tímabilinu þegar þeir mæta hollenska liðinu OCI-Lions í EHF bikarnum í fyrri leik liðana en báðir leiknir verða leiknir hér á landi um helgina. Leikurinn í kvöld hefst kl. 19:00 og er leikurinn 95. leikur karlaliðs félagsins í Evrópukeppni.

Þó nokkrar breytingar hafa orðið á liðinu frá því á síðasta tímabili. Fyrst ber að nefna það að Aron Kristjánsson hefur látið að störfum sem þjálfari liðsins og í stað hans er kominn Patrekur Jóhannesson. Nokkrir leikmenn hafa lagt skónna á hilluna frægu en það eru Freyr Brynjarsson, Gylfi Gylfason og Gísli Kristjánsson og þá hefur Sveinn Þorgeirsson verið lánaður til Fram. Þá er Aron Rafn Eðvarðsson horfinn á braut út í atvinnumennsku hjá Guif í Eskilstuna og einnig hefur Gísli Jón Þórisson farið til Noregs til liðs við Kristiansund. Í staðinn hefur liðið fengið Þröst Þráinsson til baka eftir nokkra ára útlegð í Svíþjóð og Íslandi og auk þess hefur Einar Pétur Pétursson komið til baka eftir góða lánsdvöl á Selfossi. Þetta þýðir bara það að okkar ungu og efnilegur strákar fá bara meiri spiltíma og reynslu sem sýnir bara það glæsilega unglingastarf sem er til staðar hjá félaginu.

 

Liðið hefur farið þokkalega af stað í þeim æfingarleikjum sem leiknir hafa verið og vann liðið til að mynda Hafnarfjarðarmótið sem og að standa sig vel í leikjum gegn sænska liðinu Guif í þremur leikjum í æfingarferð liðsins í Svíþjóð. En nú er komið að alvörunni og fyrsti keppnisleikur er framundan í kvöld gegn hollenska liðinu OCI-Lions. Þetta hafði Kristinn Björgúlfsson leikmaður ÍR að segja um hollenska liðið í Morgunblaðinu í dag. „Lið Lions er nánast eingöngu skipað heimamönnum en þeir hafa í sínum röðum mjög sterkan línumann frá Makedóníu að sögn Kristins, eru með góða rétthenta skyttu, sannkallaðan reynslubolta, tvo spræka miðjumenn og góðan hægri hornamann. Kristinn segir að markvarslan sé hins vegar nokkuð veikur hlekkur hjá liðinu sem spilar að öllu jöfnu 6:0 vörn.“

Hér má sjá viðtal við þjálfara Hauka Patrek Jóhannesson í Fréttablaðinu í dag. 

Þannig að hollenska liðið er sýnd veiði en ekki gefin og verða okkar menn að spila sinn besta leik ásamt því að fá góðann stuðning frá áhorfendum. Seinni leikur liðanna verður á morgun kl. 17:00. Miðaverð á leikina er kr. 1.500 (sé keypt á báða) en kr. 1.000 fyrir stakan leik.

Mætum öll í rauðu og styðjum liðið áfram í Evrópukeppninni. Áfram Haukar.