Frábær sigur á heimavelli

HaukarHaukar unnu góðan 5-1 sigur á Völsung í loka leik fyrri umferðarinnar í 1.deild karla í kvöld. Haukar lentu undir í byrjun leiks en gáfu þá í og uppskáru fimm mörk áður en leikurinn var flautaður af. Haukar eru nú í 3.sæti deildarinnar aðeins tveimur stigum frá topp sætinu. Næsti leikur Hauka er á föstudaginn gegn Þrótti R. klukkan 19:15 á heimavelli.

Ásgeir Sigurgeirsson kom gestunum frá Húsavík yfir strax í upphafi leiks eftir sendingu frá fyrirliðanum, Hrannari Birni. Leikmenn Hauka voru vart mættir til leiks og gáfu Völsung eitt mark í forskot. Þetta mark kveikti hinsvegar í Haukunum á meðan það virtist hafa slökkt á gestunum sem höfðu greinilega enga trú á verkefninu.

Með hverri sekúndunni sem leið þá bökkuðu þeir meir og meir og eftir 20 mínútna leik voru gjörsamlega allir leikmenn Völsungs komnir í vörn. Það dugði þeim þó ekki því Brynjar Benediktsson skoraði með skoti fyrir utan teig á 24.mínútu, boltinn í fjærstöngina og inn. Brynjar fékk nægan tíma til að athafna sig og þetta mark er keimlíkt öðrum mörkum Brynjars í sumars.

Haukar héldu áfram að halda boltanum og í þau fáu skipti sem Húsvíkingar fengu boltann, þá sóttu þeir ekki á fleiri en 2-3 mönnum þó oftast var Ásgeir einn í baráttunni gegn miðvörðum Hauka. Staðan í hálfleik var 1-1 en það var hinsvegar eiginlega bara tímaspursmál hvenær Haukar kæmust yfir í leiknum.

Byrjun seinni hálfleiks gaf þá gestunum ágætis von því Kristján Ómar Björnsson miðvörður Hauka fékk að líta rauða spjaldið eftir innan við mínútu af seinni hálfleik. Hann braut þá Ásgeiri Sigurgeirssyni sem var við það að sleppa í gegn. Vilhjálmur Alvar taldi Kristján líklega vera aftasta varnarmann Hauka. Ef einhverjir Húsvíkingar héldu að þetta væri byrjunin á einhverju góðu þá varð hann fyrir miklum vonbrigðum.

Yfirburðir Hauka í seinni hálfleik voru meiri en í fyrri hálfleiknum og þeir komust loks yfir á 57. mínútu. Magnús Páll Gunnarsson kenndur við Coddoc átti þá fyrirgjöf inn í teig sem Hilmar Geir Eiðsson teygði sig í, boltinn yfir Sveinbjörn í markinu, í slánna og inn. Heppnisstimpill yfir þessu hjá Hilmari en markið gott og gilt. Hilmar var síðan aftur á ferðinni á 62.mínútu þegar hann skoraði flott mark eftir fyrirgjöf frá hægri bakverðinum, Helga Val Pálssyni.

Staðan orðin 3-1 fyrir heimamenn og ekki sjón að sjá leikmenn Völsungs. Það var heldur ekki að sjá að Haukamenn væru manni færri, langt í frá. Gestirnir fengu þó sín færi og það hættulegasta fékk Péter Odrobéna er hann skaut í stöng eftir aukaspyrnu Hrannars. Peter óheppinn að minnka ekki muninn, stuttu eftir þriðja mark Hauka. Það dró mikið af Peter þegar leið á leikinn, þolið eitthvað að svíkja atvinnumanninn.

Eftir klukkutímaleik kom Tógó-búinn Anthonio S. Souza leikmaður Hauka inná í sínum fyrsta leik fyrir liðið. Hann sýndi virkilega flota takta eftir að hann kom inná. Á 73.mínútu var hann nærri því að skora sitt fyrsta mark er hann lék á Sveinbjörn í marki Völsungs en skotið sveik hann og boltinn í hliðarnetið.

Á 75.mínútu átti títtnefndur fyrirliði Völsungs, Hrannar Björn hörku skot að marki Hauka en Sigmar varði boltann út í teiginn þar sem Ásgeir sóknarmaður gestanna var síðan dæmdur rangstæður

Þetta var síðasta hættulega tilraun gestanna í leiknum, sú þriðja í leiknum. Haukar héldu áfram að sækja og fékk Ásgeir Þór Ingólfsson kjörið tækifæri að bæta við marki en skot hans yfir markið, einn gegn Sveinbirni. 

Í uppbótartíma bættu Haukar hinsvegar við tveimur mörkum. Björgvin Stefánsson skoraði fjórða mark Hauka eftir hornspyrnu frá Hilmari Trausta. Antonio skallaði boltann að marki og Björgvin kláraði með því að stýra boltanum í netið. Mínútu síðar fékk varamaðurinn Úlfar Hrafn Pálsson vítaspyrnu. Fyrirliðinn, Hilmar Trausti fór á punktinn og skoraði af miklu öryggi og sendi Sveinbjörn í vitlaust horn. 5-1 sigur Hauka staðreynd.

Þegar mótið er hálfnað eru Haukar í 3.sæti deildarinnar með 21 stig en Völsungur í 12.sæti með 2 stig. Hreinlega ekki boðlegur árangur hjá Völsung sem því miður eru ekki nægilega sterkir fyrir 1.deildina. Næsti leikur Hauka er á föstudaginn klukkan 19:15 gegn Þrótti R. á heimavelli!