Að sjálfsögðu hafa Haukastelpur verið í baráttunni í 1.deild kvenna undanfarið. Liðinu hefur gengið upp og ofan í sumar og gengið verið frekar undir væntingum ef eitthvað er. Í gær léku stelpurnar við Álftanes og eftir frábæran fyrri hálfleik, þar sem Haukar komust í 1-0 og hefðu átt að vera búnir að skora fjölda marka til viðbótar, virtist sem gasið væri búið hjá stelpunum í seinni hálfleik og Álftanes gekk á lagið og vann leikinn 2-1.
Þessi leikur kristallar svolítið sumarið í heild hjá stelpunum þar sem liðið hefur oftsinnis komist yfir en gengið illa að klára leikina með fleiri mörkum þó færin hafi svo sannarlega ekki látið á sér standa.
Næsti leikur stúlknanna er nú á sunnudag 21. júlí kl.13:00 og þar er eflaust ætlunin hjá þeim að snúa heilladísunum á sitt band.