Ólafur E. Rafnsson verður jarðsunginn í dag en útförin fer fram frá Hallgrímskirkju. Ólafur var bráðkvaddur 19. júní síðastliðinn þegar hann sótti fund miðstjórnar FIBA World en Ólafur sat sem forseti FIBA Europe.
Ólafur útskrifaðist sem stúdent frá Verslunarskóla Íslands 1982, hann lauk embættisprófi í lögfræði frá Háskóla Íslands 1990 og hóf þá störf sem fulltrúi hjá hjá Lögmönnum sf. í Hafnarfirði. Hann hlaut málflutningsréttindi fyrir héraðsdóm á árinu 1993. Í febrúar 1994 stofnaði hann ásamt Inga H. Sigurðssyni héraðsdómslögmanni Lögmenn Hafnarfirði ehf. Á árinu 1996 varð Bjarni S. Ásgeirsson hæstaréttarlögmaður meðeigandi í stofunni. Ólafur sat í stjórn Lögmannafélags Íslands á árunum 2003-2004. Árið 2012 lauk Ólafur meistaragráðu í »European Sport Governance« frá Institut d’Études Politiques de Paris.
Ólafur hóf ungur að æfa íþróttir, æfði hjá FH bæði fótbolta og handbolta en á unglingsárunum hóf hann að æfa körfubolta með Haukum. Með Haukum varð hann bikarmeistari á árunum 1985 og 1986 og Íslandsmeistari 1988. Ólafur spilaði nokkra leiki með landsliðinu í körfubolta. Ólafur kom að þjálfun yngri flokka í körfubolta sem og meistaraflokka karla og kvenna hjá Haukum. Hann var einn af þeim sem komu á fót skipulögðum æfingum í hjólastólakörfubolta og var þjálfari þar um tíma.
Ólafur sat í stjórn körfuknattleiksdeildar Hauka 1989-1990. Frá 1990-2006 sat hann í stjórn Körfuknattleikssambands Íslands og þar af formaður frá 1996. Hann var kjörinn forseti Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands árið 2006. Ólafur sat í stjórn Evrópska körfuknattleikssambandsins (FIBA Europe), frá árinu 2002 og var kjörinn forseti þess árið 2010. Frá þeim tíma sat hann jafnframt í miðstjórn Alþjóðlega körfuknattleikssambandinu (FIBA World). Ólafur var í ótal vinnuhópum, nefndum og ráðum á vegum Körfuknattleikssambands Íslands, Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands, Evrópska- og Alþjóða körfuknattleikssambandsins.
Útför Ólafs verður gerð frá Hallgrímskirkju í dag, 4. júlí 2013, og hefst athöfnin kl. 15.