Hilmar Rafn Emilsson er einn af fjölmörgu uppöldnu leikmönnum meistaraflokks karla í knattspyrnu. Hilmar hefur verið einn öflugasti sóknarmaður Hauka undanfarin ár, hann gekk til liðs við Vals fyrir síðasta tímabil en kom svo á láni aftur til Hauka um mitt síðasta sumar.
Nú styttist í að 1.deildin hefjist en fyrsti leikur Hauka í 1.deildinni er gegn Þrótti R. á útivelli. Eftir 15 dag, fimmtudaginn 9.maí. Fjórum dögum seinna mætir síðan Haukar, Víking Reykjavík í Borgunar-bikar karla.
Fyrsti heimaleikur Hauka er gegn Grindavík sem féllu úr Pepsi-deildinni, en sá leikur er föstudaginn 17.maí.
Haukar.is heldur áfram að telja niður í fyrsta leik og í dag svarar Hilmar Rafn nokkrum spurningum, um veturinn sem senn fer að ljúka og um komandi tímabil.
Nú styttist í mót, hvernig er stemningin í hópnum?
– Stemningin er hreint út sagt mögnuð. Ég hef aldrei orðið vitni að annarri eins stemningu.
Hvernig hefur staðan á meiðslum í hópnum verið að undanförnu?
– Það er opinbert markmið liðsins að verða meiddasta lið Íslands. Við fengum frænda minn Helga Val til liðsins og hefur hann hjálpað liðinu mikið hvað þetta varðar. Við tveir erum eiginlega þeir einu sem erum að leggja lóð á vogarskálarnar. Ef við ætlum okkur hins vegar að ná þessu markmiði verðum við að fá fleiri skyldmenni mín til liðsins. Það væri algjör draumur.
Er ekki komin tilhlökkun að fara æfa á grasi?
– Nei, ég elska gervigrasið og er mikill talsmaður þess. Það hefur verið sannað að það er skemmtilegra fyrir áhorfendur að sjá leik spilaðan á gervigrasi heldur en grasi. Þetta hefur mikið verið rannsakað á Norðurlöndunum og þá sérstaklega í Noregi síðustu misserin. Þess vegna eru lið úti í heimi í auknum mæli farin að spila á gervigrasi, til að fá fleiri á völlinn. Það er líka ástæðan fyrir því að áhorfendastúkan á Ásvöllum byggð við gervigrasið. Haukarnir eru í raun frumkvöðlar. Gervigrasið er í raun mun hentugri kostur hvað varðar flesta þætti knattspyrnunnar, sérstaklega þegar það er þurrt. Þá er það best.
Hvernig lýst þér á 1.deildina í sumar? Veistu mikið um styrkleika liðanna?
– Mér líst rosa vel á deildina. Það er mikið af liðum utan af landi sem er heppilegt fyrir mig því ég elska langar rútuferðir. Ísland er mjög fallegt land og fáum við að keppa á mörgum fallegum bæjarstæðum í sumar. Ég ætla að nota tækifærið og pakka myndavélinni með í íþróttatöskuna enda ekki oft sem maður fær að ferðast yfir sumartímann.
Styrkleiki hinna liðanna er eitthvað sem ég er ekki mikið að velta fyrir mér. Það skemmtilega fyrirkomulag er á deildinni þetta tímabilið að tvö efstu liðin komast upp í úrvalsdeildina. Til þess að komast upp þurfum við að vera betri en 10 lið í deildinni. Þetta er bara einföld stærðfræði.
Hvernig hafa nýju leikmennirnir komist inn í hópinn?
– Ekki vel. Þeir eru allir leiðinlegir, sérstaklega Simmi.
Við hverju má Haukafólk búast frá ykkur í sumar?
– Okkar leikfræði er í raun einföld. Við erum með Björgvin Stefánsson sem getur kastað boltanum þvert yfir völlinn án tilhlaups og leggjum við mikið upp úr því fá innköst og þá helst sunnanmegin á vellinum. Það hefur það verið sannað að það er erfiðara í fótbolta að sækja norðanmegin að markinu og ætlum við að nýta okkur þau vísindi. Þetta hefur mikið verið rannsakað og þá sérstaklega í Noregi. Fræðimenn þar halda að þetta hafi eitthvað að gera annað hvort með möndulhalla jarðar eða vegna tilfærslu á segulskautunum.
Ef allt fer að óskum verður sumarið á Ásvöllum það skemmtilegasta í manna minnum. Einskær leikgleði leikmanna í bland við elju og fórnfýsi mun verða algeng sjón. Ef svo verður fylgir góð spilamennska í kjölfarið. Með góðri spilamennsku koma sigrar, með sigrunum koma stig og eftir stigunum raðast liðin. Þetta er einföld stærðfræði.
Ég vil hvetja alla Haukamenn nær að fjær að fjölmenna á völlinn í sumar og hjálpa okkur að gera sumarið eftirminnilegt.