Eftir tvo daga hefst úrslitakeppni mfl. karla í handbolta með stórleik við bikarmeistara ÍR. Vinna þarf þrjá leiki til að komast í úrslitaleikina um Íslandsmeistaratitilinn þannig að leikirnir geta orðið í mesta lagi fimm talsins í rimmunni við ÍR. Eins og menn muna urðum Haukar deildarmeistarar í fyrra, líkt og í ár, en féllu þá úr leik með þremur töpum röð fyrir HK í fjögurra liða úrslitum, sem síðar varð íslandsmeistari.
Ekkert slíkt er á döfinni í ár og strákarnir klárir í slaginn, staðráðnir í að fara í úrslitaleikinn í ár. Af þessu tilefni slógum við á þráðinn til Matthíasar Árna fyrirliða og heyrðum í honum hljóðið, hvernig stemmningin væri í hópnum og hvernig þessi barátta við ÍR legðist í strákana.
„Nú er komið að þessu, lokaspretturinn á þessum langa vetri og það er að sjálfsögðu mikill hugur í hópnum og menn eru tilbúnir að fórna öllu í þessa leiki sem eftir eru. Við erum búnir að landa einum titli í vetur en nú er komið að því að berjast um þann stærsta. Við höfum átt hörku rimmur við ÍR-inga í vetur og ég á vona á að þessir leikir verði eins. Það verður barist um alla bolta og ekkert gefið eftir.“
„Við erum búnir að fá frábærann stuðning úr pöllunum í vetur bæði á Ásvöllum og á útivelli og vill því hvetja Haukafólk nær og fjær til að fjölmenna á þessa leiki sem eftir eru og taka þátt í þessu skemmtilega verkefni með okkur.“ sagði Matthías
Einsog áður hefur komið fram er fyrsti leikurinn á laugardag kl. 17.00 í DB Schenkerhöllinni og síðan er leikur númer tvö í Austurbergi kl. 20.00 á þriðjudag, 16. apríl. Sá leikur verður sýndur beint á nýrri sportrás RÚV samkvæmt heimildum heimasíðunnar. Þriðji leikur er síðan í DB Schenkerhöllinni, fimmtudaginn 18. apríl klukkan 19.30
Hvetjum allt Haukafólk til að mæta og hvetja strákanna áfram!