Sigurgangan stöðvuð

Haukar kíktu í heimsókn til Snæfells í gærkvöldi í 17. umferð Dominosdeildar kvenna. Fyrir leikinn voru Haukar með þrjá sigurleiki í röð, eftir góða sigra gegn Reykjanesliðunum Grindavík, Keflavík og Njarðvík, en fjórir urðu þeir ekki. Snæfell voru of sterkar í þriðja leikhlutanum og munurinn hreinlega of mikill fyrir Hauka til að elta.

Siarre Evans leiddi stigaskor Hauka með 18 stig en náði ekki tvöfaldri tvennu í fyrsta skiptið í vetur, og í fyrsta skiptið með undir 14 fráköst, en hún var „einungis“ með 9 fráköst og 5 stoðsendingar. Einnig átti hún afleitan dag handan þriggjastiga línunar en hún hitti aðeins úr 1/8 skotum, en hún er búin að vera með 68% skotnýtingu þar í seinustu tveim leikjum.

Næst kom Margrét Rósa með 13 stig og 5 fráköst og Gunnhildur var með 13 stig.

Auður Íris skilaði sínum leik með sóma að venju og er hún þriðja sóknarfrákastahæst í liðinu með 1.9 sóknarfráköst að meðaltali í leik á eftir Evans sem er með 4.8 og Jóhönnu sem er með 2.4. Ekki amarlegt af bakverði að vera. 

Nánari umfjöllun um leikinn á Karfan.is