„Ekkert annað lið kom til greina“ – segir Sigmar Ingi nýjasti markvörður Hauka

Haukar

Sigmar Ingi Sigurðarson er sá maður sem á að fylla skarð Daða Lárussonar í marki Hauka. Sigmar gekk til liðs við Hauka í október frá Breiðablik en þar hefur hann spilað síðustu ár. Á ferli sínum hefur hann einnig spilað með Hvöt í 3.deildinni og ÍH í 2. og 3.deildinni, en hann mætti einmitt Haukum í eftirminnilegum leik árið 2007 er Haukar og ÍH léku bæði í 2.deildinni.

Haukar unnu þann leik 3-2 eftir að hafa komist 3-0 yfir, en ÍH skoruðu tvö mörk á loka mínútunum og Amir Mehica þáverandi markvörður Hauka fékk að líta rauða spjaldið fyrir að tefja leikinn. Tvö marka Hauka komu úr vítum í leiknum. En þetta var nú bara smá útidúr.

Sigmar er giftur tveggja barna faðir sem býr í Kópavogi, hann er útskrifaður lögfræðinemi úr Háskólanum í Reykjavík og vinnur í Arion Banka.

Undirritaður hafði samband við nýjasta leikmann Hauka og bað hann um að svara nokkrum spurningum.

Eftir að Gunnleifur Gunnleifsson landsliðsmarkvörður gekk til liðs við Breiðablik frá FH var nokkuð ljóst að annað hvort eða jafnvel báðir markverðir Breiðabliks, þeir Sigmar Ingi og Ingvar Kale myndu hverfa af braut og spila með öðru liði, en ætli fleiri lið en Haukar hafi verið í sigtinu hjá Sigmari?

,,Það voru önnur lið í sambandi við mig og ég ræddi lauslega við eitt þeirra en þegar Haukarnir sýndu áhuga var ekkert annað sem kom til greina en að semja við þá.“

Eins og kom fram hér að ofan hefur Sigmar leikið með Breiðablik síðustu ár, en þó oftast sem varamarkvörður. Hann sló hinsvegar Ingvar Kale útúr liðinu hjá Breiðablik bæði í fyrrasumar og í sumar og lék nærri helming leikja Breiðablik þau tvö sumur. Það er samt orðið langt síðan að Sigmar lék heilt tímabil sem aðalmarkvörður, eða árið 2007 með ÍH í 2.deildinni er hann lék alla 18 leiki liðsins.

,,Þegar ég kom upp úr 2.flokki Breiðabliks á sínum tíma fékk ég ekki þau tækifæri sem mér fannst ég eiga skilið þrátt fyrir að standa mig vel. Ég fór því á flakk og spilaði í 3. og 2. deild til að ná mér í reynslu. Eftir tímabilið með ÍH 2007 ákvað ég þó að láta hanskana á hilluna. Það var síðan fyrir tímabilið 2009 sem Maggi Palli (Magnús Páll Gunnarsson, framherji Hauka) dró mig á æfingu hjá Breiðablik að ég byrjaði aftur. Ég ákvað að gera hlutina almennilega fyrst ég var að byrja aftur og hef verið að vinna í því síðan þá að koma mér í betra líkamlegra form og vinna vel með Óla P. markmannsþjálfara Blika til að laga það sem ég þurfti að laga í mínum leik.“

,,Ég hef bætt mig mikið á hverju ári og spilað meira og meira og nú fannst mér tími til kominn til að koma mér í gott lið þar sem ég myndi fá traustið til að spila,“ sagði Sigmar Ingi sem byrjaði að æfa með liðinu þegar undirbúningstímabilið byrjaði í síðustu viku, honum líst vel á félagið en hann þekkti ekki marga leikmenn í liðinu áður en hann gekk til liðs við Hauka,

,,Mér líst vel á félagið og hópurinn er virkilega flottur. Mikið af góðum fótboltamönnum, andinn í hópnum er mjög góður og svo er þjálfarateymið líka frábært. Ég þekkti bara Magga Palla. úr Breiðablik og Danna Einars. en við spiluðum saman í ÍH 2007,“ og þarna er hann að tala um Daníel Einarsson varnarmanninn sterka sem lék reyndar ekki með Haukum á síðasta tímabili en hefur verið að æfa með liðinu á undirbúningstímabilinu og aldrei að vita nema hann ætli að spila með Haukum á næsta tímabili.

Að lokum var Sigmar Ingi spurður út í komandi tímabil, 

,,Ég er mjög bjartsýnn á komandi tímabil og það var m.a. ein aðal ástæðan fyrir því að ég vildi koma í Hauka því ég vissi að hérna væri metnaður til að vera í baráttu um sæti í Pepsi deildinni,“ sagði nýjasti markvörður Hauka að lokum.

Við þökkum honum kærlega fyrir svörin og bjóðum hann að sjálfsögðu velkomin í Hauka. Stefnt er að því að leika fyrsta æfingaleikinn um næstu helgi, og við munum reyna að birta dagsetningu, tímasetningu, staðsetningu og mótherja hér á heimasíðunni þegar við fáum þær upplýsingar.