Sigurbjörn Örn Hreiðarsson spilandi aðstoðarþjálfari Hauka í knattspyrnu var á dögunum fenginn til að svara nokkrum spurningum varðandi knattspyrnuliðið, síðasta tímabil og það sem framundan er. Í gær birtum við svar Sigurbjörns um síðasta sumar og í dag munum við birta fleiri svör hans.
Undirbúningstímabilið fer að hefjast hjá meistaraflokknum, en samkv. Sigurbirni mun meistaraflokkurinn byrja undirbúningstímabilið í byrjun nóvember og verður því svipað háttað og í fyrra.
Fyrsta spurningin var einföld, en hún beintist á Sigurbirni sjálfum, og það lá forvitni að vita hvort Sigurbjörn ætlaði að halda áfram að spila,
,,Ég ætla vera til taks. Ég mun æfa en ég vonast til að komast ekki í liðið. Því þá er liðið það sterkt að það á að ná hæstu hæðum. En annars, sjáum við nú bara til hvort maður eigi eitthvað eftir á tanknum,“ – sagði Sigurbjörn sem telur að það verði einhverjar breytingar á liðinu frá síðasta sumri og vonast til þess að endurheimta fleiri „gamla“ Haukamenn, en eins og flestir vita sneri Ásgeir Þór Ingólfsson aftur heim eftir eins árs dvöl hjá Val í sumar,
,,Við fáum vonandi einhverja leikmenn til baka. Ég segi alltaf að meirihkuti í hverju liði eða hóp eigi að vera heimamenn sem þekkja klúbbin og beri réttar tilfinningar til hans, og hafa getu til að vera í liðinu því það er ekki nóg að hafa alist upp í hverfinu. En sem betur fer eiga Haukar góða uppalda leikmenn sem eru í öðrum liðum. Það á auðvitað að vera metnaðarmál að koma Haukum á toppinn fyrir alla sem koma að félaginu. Og það væri skelfileg upplifum fyrir þann Haukara sem væri í burtu þegar klúbburinn næði hæstu hæðum og tæki ekki þátt í því. Að sama skapi þá hefur það verið lenska hér á landi og örugglega annarstaðar að gera ekki eins vel við heimamenn eins og aðra sem koma í liðið og því hafa leikmenn oft farið annað þar sem boðið er hærra. En jú við fáum einhverja til baka,“ – staðfestir Sigurbjörn og munu þau mál skýrast á allra næstu dögum, jafnvel í dag. Sigurbjörn segir þó það, að hann vonist eftir að ekki verði miklar breytingar á hópnum og telur hann að þjálfarateymið nú, þekki liðið og leikmenn betur en fyrir síðasta tímabil og það munu nýtast vel,
,,Núna þekkjum við mannskapinn og klúbbinn betur. Annað en í fyrra þar sem það tók nokkra mánuði að komast inní þetta. En það er alveg ljóst að það verða einhverjar. Við þurfum að styrkja okkur framávið sem lið og erum að vinna í því. Við getum bætt okkur sóknarlega sem lið tölvert og komum til með að gera það. Eins þurfum við að þétta hópinn og umgjörð á sumum sviðum og það er í vinnslu,“ sagði Sigurbjörn Örn, eða Bjössi Hreiðars. eins og hann er nú oftast kallaður.
Við þökkum Sigurbirni kærlega fyrir svörin og vonum að þetta hafi svarað nokkrum stuðningsmönnum liðsins, sem voru þyrstir yfir því að fá nokkur tíðindi af hópnum. Við hér á Haukar.is vonum að framhald verði á þessu og upplýsingaflæðið um báða meistaraflokka félagsins í knattspyrnu, verði meiri.
Þangað til næst – Áfram Haukar!