Á morgun, miðvikudag keppa strákarnir okkar við lið UMFA að Varmá í N1-deild karla í handbolta. Leikurinn var færður fram um einn dag þar sem aðeins nokkrum klukkutímum eftir að leik lýkur halda Haukar til Úkraínu til að spila báða leikina við Motor Zaporoshye. Leikið verður þar klukkan 17.00 að staðartíma bæði laugardag og sunnudag.
Strákarnir gerðu jafntefli í síðasta leik við HK og eru í efsta sætinu með fimm stig eins og Akureyri og HK. Afturelding er hinsvegar í neðsta sæti deildarinnar án stiga. Síðasti leikur þeirra var við Val á laugardag þar sem þeir léku án Davíð Svanssonar markmanns sem tók út leikbann en hann hefur verið þeirra besti maður. Leiknum töpuðu þeir 20-26. Áður höfðu þeir leikið við ÍR og tapað 25-28 og síðan töpuðu þeir fyrir HK 24-23 í hörkuleik.
Má því reikna með að Afturelding selji sig dýrt til að ná í sín fyrstu stig í deildinni. Er því nauðsynlegt að hvetja Haukafólk til að styðja strákanna okkar í þessum erfiða leik og mæta að Varmá til að tryggja tvö stig og gott veganesti til Ukraínu.