Ásgeir Þór Ingólfsson hefur skrifað undir tveggja ára samning við Hauka í knattspyrnu, eftir árs fjarveru en hann lék með Val í Pepsi-deild karla í sumar. Ásgeir er eins og flest allir vita, uppalinn Haukamaður og hafði alla sína tíð spilað fyrir Hauka, áður en hann reyndi fyrir sér með Val í sumar.
Þetta eru frábær tíðindi fyrir Hauka, enda hefur Ásgeir Þór mikið til bruns að bera og mun án efa nýtast Haukaliðinu vel í 1.deildinni, á næsta sumri. Frá þessu var greint á Fótbolti.net en þar var stuttlega rætt við Ásgeir, og sagði hann til að mynda þetta um heimkomuna,
,,Ég heyrði af áhuga frá nokkrum liðum og hugsaði mig vel og vandlega um hvað ég ætti að gera. Ég tók léttan fund með Sigurbirni Hreiðars. (aðstoðarþjálfara Hauka) og eftir það var þetta ekki spurning, ég var strax tilbúinn í að fara í Haukatreyjuna og út á völl eftir þann fund, Mér líst vel á það sem hann og Ólafur Jóhannesson, eru búnir að leggja upp fyrir næsta tímabil og ég hlakka til að spila með Haukum næsta sumar.“
,,Besta stund ferilsins var að labba með Haukum inn á völl í úrvalsdeildinni og ég vonast til að vekja áhuga annarra leikmanna sem eru uppaldir hjá Haukum að koma til baka og hjálpast að við að ná úrvalsdeildarsæti á nýjan leik,“ sagði Ásgeir til að mynda og tökum við undir þau orð og vonum svo sannarlega að fleiri uppaldnir leikmenn snúi heim á Ásvelli fyrir komandi tímabil.
Að lokum bjóðum við að sjálfsögðu Ásgeir Þór velkominn heim að nýju.
Fréttina um Ásgeir á Fótbolti.net er hægt að lesa í heild sinni hér.