Evans til kvenna liðs Hauka

Siarre Evans og Jence Ann Rhoads berjast hér þegar báðar léku í Háskóla - ETSU.comHaukar hafa ráðið til sín leikmann til að taka slaginn í Domino‘s deild kvenna í vetur. Sú heitir Siarre Evans og lék með East Tenessee State háskólanum en þar var hún að skora 16,5 stig að meðaltali, taka 11 fráköst og gefa 2 stoðsendingar.

Evans hefur nokkra Evrópu reynslu en hún byrjaði atvinnumannaferilinn í Lúxemborg með Racing Lúxemborg. Þar var hún með 32 stig, 18.4 fráköst og 3 stoðsendingar að meðaltali og eftir tímabilið með Racing fór hún til Apollon Ptolemaidos á Grikklandi þar sem hún lék aðeins sjö leiki. Á Grikklandi skoraði hún 17 stig, var með 12,7 fráköst og 1,7 stoðsendingar en  færði sig svo um set og spilaði með FoA í Finnlandi og kláraði tímabilið í fyrra með þeim.

Evans er 24 ára og 178 cm og kom til landsins í morgun. Hún fær ekki mikinn tíma fyrir átökin í deildinni en Haukar spila gegn Keflavík á miðvikudaginn og því nær Evans einungis tveimur æfingum fyrir þann leik.