Haukar unnu hreint merkilegan sigur á Víkingi Reykjavík í unaðslegu veðri á Schenkervellinum að Ásvöllum í kvöld. Lokatölur voru 2-0 fyrir heimamenn en þær gefa ekki rétta mynd af leiknum því Víkingar voru töluvert sterkari aðilinn í leiknum. Haukar hins vegar vörðust vel og má því segja að varnarsigur þeirra sé staðreynd.
Leikurinn var afar leiðinlegur fyrsta hálftímann, gestirnir meira með boltann og náðu nokkrum fyrirgjöfum sem Sverrir Garðarsson í vörn Hauka sá að mestu leyti um að skalla frá.
Á 36. mínútu koma fyrsta færi leiksins, Sigurður Egill Lárusson komst þá nánast einn í gegnum vörn Hauka og átti skot í utanverða markstöng á Haukarmarkinu úr virkilega góðu færi. Helgi Sigurðsson, spilandi aðstoðarþjálfari Víkinga var hins vegar í enn betra færi og hefði ekki annað þurft en að fá sendingu frá Sigurði Agli til að rúlla boltanum í opið markið. Helgi lét líka Sigurð Egil heyra það svo ómaði alla leið upp í Fossvog.
Stuttu síðar átti Helgi svo ágætis skot á lofti úr miðjum teig Haukamanna eftir fyrirgjöf en boltinn rétt yfir markið.
Eins og sjá má á lýsingunni voru Víkingar mun líklegri til að skora og það kom því eins og þruma úr heiðskýru lofti þegar Viktor Unnar Illugason skoraði fyrsta mark leiksins þegar hann mætti á nærstöngina og kláraði góða fyrirgjöf frá Aroni Jóhanssyni í markið. Markið þvert gegn gangi leiksins.
Seinni hálfleikur var um margt líkur þeim fyrri, Víkingar meira með boltann og töluvert ógnandi í sínum sóknum, án þess þó að fá algjör dauðafæri. Haukavörnin með miðverðina Sverri Garðarsson og Guðlaug Fannar Guðmundsson aftasta í baki fylkingar stóð sig gríðarlega vel með Daða Lárusson í stuði fyrir aftan sig.
Á 68. mínútu kom Helgi Sigurðsson boltanum í mark Hauka með frábæru skoti utan teigs en þar sem hann kom úr rangstöðu til að sækja boltann taldi markið ekki.
Nokkrum mínútum síðar small boltinn í hönd varnarmanns Hauka og áttu gestirnir sennilega að fá víti þar en heimamenn sluppu með skrekkinn.
Á 77. mínútu gerði Daði Lárusson, sín einu mistök í leiknum er hann missti fyrirgjöf fyrir fætur Arons Elís Þrándarsonar en hann var ekki viðbúinn og skaut boltanum yfir í sannkölluðu dauðafæri.
Jöfnunarmark Víkinga virtist liggja í loftinu og hefði svo sannarlega ekki verið ósanngjarnt ef þeir hefðu skorað það, en fótboltinn er grimmur. Þegar komið var fram í viðbótar tíma juku heimamenn forystu sína í 2-0 er Enok Eiðsson fékk boltann allt í einu einn og óvaldaður inn í teig Víkinga, snéri í rólegheitum og hamraði boltann í markið.
Stuttu síðar var flautað til leiksloka og gátu Haukar fagnað sigrinum vel og innilega enda mikill vinnusigur að baki. Víkingar hins vegar miklir klaufar að gera ekki betur í þessum leik og má segja að með tapinu séu þeir úr leik í baráttunni um sæti í efstu deild í bili að minnsta kosti. Það er þó enn að sjálfsögðu mikið eftir að mótinu og aldrei skyldi segja aldrei. Þó er ljóst að gestirnir úr Fossvogi auðvelduðu ekki þær áætlanir sínar að fara upp um deild með þessum ósigri.
Haukar hins vegar eru í góðum málum, hafa einungis tapað einum leik og eru hreinlega óhugnarlega þéttir varnarlega. Ef þeim gengur betur í komandi leikjum að skapa sóknir er ljóst að þeir rauðklæddu úr Hafnarfirði gera sterka atlögu að Pepsí deildar sæti í haust.