Haukar og Þróttur mættust í gærkvöld í 1.deild kvenna í knattspyrnu og fór leikurinn fram á Ásvöllum. Leiknum lyktaði með 1-1 jafntefli og voru það heimastúlkur í Haukum sem komust í 1-0 með marki frá Hildigunni Ólafsdóttur á 2. mínútu en Þróttarar jöfnuðu á 82. mínútu.
Haukastelpur byrjuðu leikinn af miklum krafti og skoraði Hildigunnur Ólafsdóttir mark eftir hornspyrnu strax á 2. mínútu leiksins. Eftir þetta hélt pressa Haukastelpna áfram og voru þær óheppnar og í raun klaufar að bæta ekki við fleiri mörkum. Markvörður Þróttar hafði nóg að gera og gerði raunar sitt vel. Hinu megin vallarins var minna að gera hjá Kristínu Lovísu Lárusdóttur í Haukamarkinu en hún þurfti þó að grípa inn í á köflum því þó sóknir Þróttara væru færri þá voru þær markvissar og hættulegar. Þróttarar fengu til að mynda besta færi fyrri hálfleiks þegar leikmaður þeirra slapp í gegn en Kristín í marki Hauka varði stórkostlega.
Á 36. mínútu varð ákveðinn vendipunktur í leiknum er Kristín Ösp Sigurðardóttir fékk rautt spjald eftir viðskipti sín við einn leikmanna Þróttar, rauða spjaldið fyllilega réttlætanlegt en spurning er hvort báðir leikmenn hefði hugsanlega átt að fá reysupassan. Það skal þó tekið fram hér að undirritaður sá ekki atvikið nægjanlega vel til að fullyrða um það á þessari stundu.
Seinni hálfleikur var eðlilega töluvert frábrugðin þeim fyrri, Haukastúlkur drógu sig aftar á völlinn og freistuðu þess að verja forskotið og beita skyndisóknum en Þróttarar voru meira með boltann. Lítið gekk hjá gestunum að sækja að marki Haukanna og fengu þær afar fá færi enda varnarmúrinn þéttur, auk þess sem Haukastúlkur héldu boltanum ágætlega innan síns liðs þegar færi gafst.
Þróttur jafnaði hins vegar metin á 83. mínútu og kom mark þeirra með góðum skalla eftir hornspyrnu, Kristín Lovísa í Haukamarkinu var í boltanum en inn fór hann og staðan því 1-1. Nokkuð lá á Haukaliðinu það sem eftir lifði leiks en þær héldu út og lönduðu mikilvægu stigi gegn Þróttarliði sem spáð var góðu gengi fyrir Íslandsmótið.
Haukastúlkur eiga hrós skilið fyrir góða frammistöðu í leiknum, erfitt er að taka einhverja út en varnarlína liðsins og markvörður eiga sérstaklega hrós skilið fyrir frábæra frammistöðu.