Leikur Hauka og Leiknis í dag á Ásvöllum var fínasta skemmtun, bæði lið spiluðu sóknarbolta og mikil barátta einkenndi einnig leikinn sem fram fór í fínu veðri. Viðureignin var nokkuð jöfn og eru Leiknismenn eflaust sárir að hafa ekki tekið neitt með sér úr leiknum en ekki verður þó sagt að sigurinn hafi verið ósanngjarn hjá Haukum sem virka gríðarlega þéttir og öflugir í leik sínum.
Fyrri hálfleikur var markalaus en langt því frá að vera steindauður því bæði lið fengu ákjósanlega möguleika til að skora. Til að mynda áttu þeir Aron Jóhannsson og Hróar Sigurðsson mjög góð færi en í báðum tilvikum komust varnarmenn Leiknis fyrir boltann á síðustu stundu. Besta færi heimamanna í fyrri hálfleik fékk svo Viktor Smári Segatta er hann lék laglega á einn varnarmann Leiknis áður en hann skaut flottu skoti innanfótar rétt utan teigs sem small í stöng Leiknismarksins.
Hinu megin vallarins var Kristján Páll Jónsson oft skeinuhættur og átti hann meðal annars mjög gott færi í teignum sem hann hefði klárlega sett í markið ef varnarmenn Hauka hefðu ekki náð að henda sér fyrir boltann á síðustu stundu.
Seinni hálfleikur var einnig líflegur en því miður fyrir gestina úr Breiðholti ákváðu þeir að hefja síðari hálfleikinn um korteri of seint en þá höfðu Haukar hins vegar skorað tvö mörk. Fyrst var það miðvörðurinn ungi Gunnlaugur Fannar Guðmundsson sem skoraði með föstum skalla eftir hornspyrnu Hilmars Trausta Arnarsonar. Það var svo Hilmar Trausti sjálfur sem skoraði annað mark Hauka úr vítaspyrnu sem dæmd var fyrir brot á Aroni Jóhannssyni.
Eftir mörkin tvö bökkuðu heimamenn eilítið og hleyptu gestunum inn í leikinn. Smátt og smátt hertu Leiknismenn tökinn og höfðu átt nokkur hættuleg færi áður en Ólafur Hrannar Kristjánsson minnkaði muninn í 1-2 á 90 mínútu.
Ekki nema mínútu síðar varð umdeilt atvik. Ólafur Hrannar var þá með boltann inni í teig og féll við, en í stað þess að fá vítaspyrnu fékk Ólafur Hrannar gult spjald fyrir leikaraskap, sem var hans annað gula spjald í leiknum og því fylgdi það rauða á eftir.
Leikurinn fjaraði út án stórtíðinda eftir þetta atvik og Haukar fögnuðu sigri sínum vel enda komnir með jafn mörg stig og Fjölnir í efsta sæti deildarinnar að leiknum loknum. Þórsarar geta hins vegar komist upp fyrir liðin með sigri á BÍ/Bolungarvík á mándagskvöldið.