Unglingaflokkur kvenna varð um helgina Íslandsmeistari í handknattleik eftir sigur á Fylki 28-24 en leikið var í Schenkerhöllinni á Ásvöllum. Haukastelpurnar höfðu yfirhöndina allan leikinn og varð leikurinn í raun aldrei neitt spennandi þrátt fyrir að stúlkurnar úr Árbæ gæfust aldrei upp. Okkar stelpur geta svo sannarlega verið ánægðar með veturinn þar sem þær unnu alla titla sem í boði voru, bikar-, deildar- og Íslandsmeistaratitilinn. Sannarlega frábær árangur!
Haukar óska stelpunum til hamingju með sigurinn og árangurinn í vetur í heild sinni. Raunar var árangur liða frá Haukum í vetur góður þrátt fyrir að einungis einn íslandsmeistaratitill hafi skilað sér í hús. Nú tekur við gott sumarfrí áður en keppni hefst að nýju í haust.