Haukar minnka muninn í 2-1

tomasz(hjá)karfan.isLeikmenn meistaraflokks kvenna stöðvuðu það að Njarðvíkingar myndu fagna Íslandsmeistaratitli í gærkvöld þegar að liðið sigraði heimastúlkur 66-69. Framan af leik var lið Hauka allt annað en líklegt til að fara með sigur af hólmi en frábær spilamennska í fjórða leikhluta tryggði þeim að minnsta kosti einn leik til viðbótar í einvíginu.

Haukaliðið átti erfitt uppdráttar strax í upphafi leiks. Njarðvík byrjaði með látum og komst í 3-0 og svo 12-4 strax á upphafs mínútunum. Allt gekk upp hjá grænum og leiddu heimamenn í Njarðvík 22-11 eftir fyrsta leikhluta. Áfram héldu Njarðvíkurstúlkur að salla körfum á Hauka á meðan ekkert gekk upp hjá þeim. Auðveld skot í kringum körfuna voru ekki að detta niður og áður en langt um leið var munurinn orðinn 17 stig Njarðvíki í vil eða 30-13.

Haukar tóku smá kipp undir lok fyrri hálfleiks og minnkuðu muninn í 11 stig fyrir hálfleikinn, 33-22. Jence Rhoads átti erfitt uppdráttar í fyrri hálfleik og var aðeins með 4 stig en það átti eftir að breytast.

Haukar voru allt annað lið í seinni hálfleik og börðust eins og ljón. Jafnvel er spurning hvort að þær hafi þurft allan fyrri hálfleik til þess að átta sig á því að tímabilið væri búið ef að þær gerðu ekki eitthvað í málunum. Jafnræði var með liðunum í þriðja leikhluta en Haukar höfðu þó örlítið betur og sjö stig munaði á liðunum eftir hann.

Bæði TJ og Jence vöknuðu til lífsins í seinni hálfleik og drógu liðið áfram í stigaskori en á meðan gekk lítið upp hjá Njarðvík. Haukar komust yfir um miðjan leikhlutann og restin af honum var æsi spennandi. Margrét Rósa Hálfdanardóttir átti flottan leik sem og Gunnhildur Gunnarsdóttir og áttu þær ásamt Jence og TJ  stóran þátt í glæsilegum endasprett liðsins í lokinn.

Haukar náðu mest sex stiga forskoti, 63-69, og unnu á endanum 66-69 og minnkuðu muninn í einvíginu 1-2.<

Tierny Jenkins var með trölla tvennu þegar hún skoraði 26 stig og reif niður 29 fráköst en ásamt því varði hún 6 skot. Jence Ann Rhoads var með  19 stig, 6 fráköst, 6 stoðsendingar og 4 varin skot, Margrét Rósa Hálfdanardóttir var með 11 stig, 4 fráköst og 5 stoðsendingar, Gunnhildur Gunnarsdóttir 9/5 fráköst og María Lind Sigurðardóttir gerði 4 stig.