Guðrún Ósk ekki meira með

Guðrún Ósk á fljúgandi ferð gegn Keflavík - karfan.isGuðrún Ósk Ámundadóttir mun ekki leika meira með Haukum á þessari leiktíð en hún líkt og Íris Sverrisdóttir fór meidd af velli í öðrum leik liðsins gegn Keflavík í undanúrslitum nú fyrir skemmstu. 

Í fyrstu var talið að meiðsli Guðrúnar væru minni háttar en í ljós kom að hún er einnig, líkt og Íris, með slitið krossband í hægra hné og mun því missa af restinni af leiktíðinni sem og lunganu úr næsta tímabili. Guðrún fer í aðgerð í í lok maí og ef allt gengur eftir á hún að geta snúið aftur í janúar 2013 en átta til níu mánuði tekur að jafna sig eftir aðgerð.

Guðrún sagði í samtali við Hauka.is að þetta væri gríðarlegt áfall í ljósi þess að skemmtilegasti tími leiktíðarinnar væri að hefjast. „Það er í raun ekki hægt að lýsa því hvað þetta er gríðarlegt áfall og sérstaklega á þessum tímapunkti þar sem að skemmtilegasti partur tímabilsins er að byrja.“

Guðrún mun að sjálfsögðu planta sér á hliðarlínuna í staðinn og hvetja þær áfram þaðan. „Ég hef fulla trú á mínu liði og verð með þeim á hliðarlínunni og hvet þær áfram,“ sagði hún og bætti við þegar hún var beðin um að spá fyrir úrslitin: „Við tökum þetta 3-1.“