Þessa fimmtudagskvölds verður ekki minnst lengi í hugum Haukafólks því við töpuðum leikjum okkar í bæði handboltanum og körfuboltanum.
Handboltastrákarnir léku sem kunnugt er við Val og náðu sér aldrei á strik í þeim leik. Uppskeran var eftir því, tap 18-25 og ljóst að liðið getur mun betur. Markahæstu menn Hauka í leiknum voru Freyr Brynjarsson með 5 mörk og Gylfi Gylfason með 4 mörk. Aron Rafn Eðvarðsson varði 13 skot í markinu.
Í körfuboltanum lutum við í gólf gegn Stjörnunni í Garðabæ. Lokatölur urðu 81-74 í leik sem var mjög jafn lengst um og okkar menn raunar yfirleitt með örlitla forystu. En Garðbæingar sigu framúr íl lokin með því að sigra síðasta leikhlutan með 13 stiga mun. Mikil batamerki voru á leik Haukaliðsins og ef liðið spilar eins og það gerði í þrem fyrstu leikhlutunum fara stigin væntanlega að skila sér í hús. Stigahæstu menn Hauka í leiknum voru Hayward Faine með 19 stig og Örn Sigurðarson með 18 stig.