Haukastelpur áfram í Poweradebikarnum

Jence og félagar unnu góðan sigur á KR og eru komnar áfram í bikarnum - karfan.is

Haukar tryggðu sig áfram í Poweradebikar kvenna þegar þær lögðu lið KR að velli í Schenker-höllinni í Hafnarfirði í kvöld. Grípa þurfti til framlengingar til að skera úr um sigurvegarann en Haukar sem hafa haft gott tak á liði KR í vetur gáfu eftir á lokasprettinum eftir að hafa náð þó nokkrum mun.
Haukar byrjuðu betur í fyrsta leikhluta með Hope Elam fremsta í flokki. Haukar voru að spila fína vörn og náðu upp smá mun þó hann hafi ekki verið mikill. Liðin skiptust á að skora út leikhlutann en og Haukar leiddu með fimm stigum þegar að hann kláraðist.
 
KR náði góðum spretti í upphafi annars leikhluta og breytti stöðunni úr 23-16 í 23-25. Haukar tóku leikhlé og aftur snérist leikurinn Haukum í vil. Haukar enduðu leikhlutann með 10-0 spretti og á sama tíma köstuðu KR stúlkur boltanum frá sér 12 sinnum.
 
Haukar leiddu með átta stigum þegar að seinni hálfleikur hófst og fljótlega voru þær búnar að auka muninn í 17 stig með góðum leik. Dæmið átti þó eftir að snúast við og á meðan ekkert gekk upp í sóknarleik Hauka duttu gjörsamlega öll skot KR niður og um miðjan fjórða leikhluta leiddu KR konur með 7 stigum. Haukar náðu að minnka muninn í tvö stig þegar að rétt rúmar 10 sekúndur voru eftir og Jence Rhoads stal svo boltanum þegar að KR tók boltann inn, keyrði að körfu þeirra og jafnaði leikinn. KR fékk séns til að tryggja sér sigurinn í venjulegum leiktíma en þétt vörn Hauka gerði það að verkum að skot Bryndísar Guðmundsdóttur varð að engu og framlengja þurfti leikinn.
 
Haukar byrjuðu af miklum krafti í framlengingunni og skoruðu fjögur stig í röð. Bryndís Guðmundsdóttir minnkaði muninn með þriggja stiga skoti og staðan 74-73. Restin af leiknum fór fram á vítalínu KR-inga þar sem að Haukar nýttu öll fjögur vítin sem að þeir fengu og leikurinn vannst með fimm stiga sigri Hauka 78-73.
 
Jence Rhoads var stigahæst Hauka með 23 stig en jafnframt tók hún 8 fráköst og gaf 7 stoðsendingar. Hope Elam var henni næst með 22 stig og 11 fráköst og Íris Sverrisdóttir var með 14 stig.